Líkur bjarkeyjarkvisti (S. chamaedryfolia) en með sívalar greinar sem eru uppréttari og þéttstæðari. Lauffellandi runni allt að 1,5 m hár með brúnleitar til brúnar greinar, hærðar í fyrstu.
Lýsing
Lauf allt að 5×1,25-2 sm, breið-oddbaugótt til egglaga-aflöng, snubbótt, lítið eitt dúnhærð eða grá-lóhærð neðan í fyrstu, heilrend eða 6-8 tennt við oddinn. Blómin allt að 8 mm í þvermál, hvít eða fölgul, í hálfhnöttóttum, margblóma klasa allt að 4 sm löngum á enda laufótts sprota, stundum nokkrir saman eins og litlir skúfar, blómbotn 2 mm, bikarblöð 1 mm, baksveigð, krónublöð 3 mm, kringlótt, fræflar lengri en krónublöðin. Aldin hárlaus eða lítið eitt dúnhærð.
Uppruni
A Evrópa til NA Asíu.
Harka
5
Heimildir
1
Fjölgun
Sumargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í óklippt limgerði, í raðir, sem stakstæðir runnar, í þyrpingar, aftarlega í beð.
Reynsla
Í Lystigarðinum eru til allmargir runnar af garðakvisti, sem sáð hefur verið til frá 1979 til 1996. Þeir þrífast vel, sumir orðnir 2 m háir. Blómstra árlega nema þeir hafi orðið undir öðrum gróðri og lent í of miklum skugga. Þeir eru með fallega skærgula haustliti. Harðgerður runni, grisja þarf reglulega til að þétta og endurnýja vöxt því hann verður fremur ber neðan til með árunum.