Lauffellandi runni, 0,5-1 m hár, kúlulaga í vextinum, þéttgreindur, fallegir gulir-rauðbrúnir haustlitir. Smágreinar dálítið bugðóttar, sívalar eða ógreinilega kantaðar, rauðbrúnar, rákóttar, hárlausar.
Lýsing
Laufin 2-5×1,25-4 sm, breiðegglaga til oddbaugótt oddurinn bogadreginn til snubbóttur, oftast breið-fleyglaga en stundum bogadregin eða þverstýfð við grunninn, bogtennt eða tví-bogtennt, dökkgræn ofan, grágræn og netæðótt á neðra borði, oftast hárlaus. Blaðleggur allt að 6,5 mm, hárlaus. Blóm allt að 0,8 mm í þvermál, hvít eða bleik í þéttum, endastæðum, blómmörgum hálfsveip, sem er allt að 6,5 sm í þvermál. Aðalleggur blómskipunarinnar verður hárlaus með aldrinum. Bikarblöð tígullaga, baksveigð við aldinþroskann, krónublöð egglaga-kringlótt, miklu styttri en fræflarnir. Aldin hárlaus.
Uppruni
NA Asía til M Japan.
Harka
5
Heimildir
= 1
Fjölgun
Sumargræðlingar, skipting, sáning.
Notkun/nytjar
Sem stakstæður runni, í limgerði, í þyrpingar, í beð, í raðir, í ker.
Reynsla
Í Lystigarðinum eru til gamlir runnar sem kala talsvert flest ár en blómstra samt. Einnig eru til nokkrir runnar sem sáð var til 1990, 1991 og 1994. Þeir kala líka flest ár en blómstra samt.Harðgerður runni, sem má klippa alveg niður.
Yrki og undirteg.
Spiraea betulifolia 'Borg' Roðakvistur, 50-60 sm hár runni, íslenskt kvæmi sem er með ljósbleik blóm. (heimild: http://www.simnet.is/)