Sorbus americana

Ættkvísl
Sorbus
Nafn
americana
Íslenskt nafn
Hnappareynir
Ætt
Rósaætt (Rosaceae).
Lífsform
Lauffellandi runni eða tré.
Kjörlendi
Sól.
Blómalitur
Hvítur.
Blómgunartími
Júlí.
Hæð
5-8 m
Vaxtarlag
Fremur hægvaxta, einstofna eða margstofna tré sem verður allt að 10 m á hæð (meira og minna eftir uppruna), fremur hægvaxta með ávalri frekar opinni krónu. Gæti jafnvel flokkast undir stórvaxinn runna. Börkur ljósgrár, sléttur og þunnur og brotnar upp í þunnar flögur með aldrinum. Árssprotar þykkir, stinnir, rauðbrúnir. Brum keilulaga, djúprauð, meira eða minna límkennd, stór eða allt að 20 mm, aðallega með rauðbrúnum hárum í oddinn og á jöðrum brumhlífa.
Lýsing
Blöðin stór, stakfjöðruð, hvert lauf allt að 33 sm með rauðri miðtaug og 7-8 laufblaðapörum. Hvert smálauf allt að 10 x 2,6 sm, oddbaugótt-lensulaga og mjókkar smám saman til enda, langydd, fíntennt nær því að grunni og ekki nöbbótt á neðra borði, skærgræn á efra borði, ögn dúnhærð á unga aldri, grágræn og dúnhærð á neðra borði, bogsdregin eða breiðkeilulaga í grunninn og haustlitir eru gulir.Blómin í stórum hálfsveipum, hver allt að 14 sm í þvermál. Bikarinn lítill, bjöllulaga með fimm sepum. Krónublöð nær kringlótt, hvít, 2-5 mm á lengd. Í hverju blómi eru margir fræflar og 3-4, hálfundirsætnar frævur, ekki samvaxar ofan til, dálítið hærðar. Stílar allt að 2 mm, með nokkru millibili. Fræflar eru styttri en krónublöðin. Aldin gljáandi appelsínugul-rauð að 7,5-8 mm, nánast kúlulaga. Aldinin eru æt en fremur súr á bragðið. Bikarblöð varla kjötkennd. Hvert aldin er með 1-2 fræjum sem eru gulleit en verða kastaníubrún með þroska, lítið eða 3 x 2 mm. Töluvert breytileg tegund. 2n=34 (McAll.)Líkist fjallareyni en sá er með rauðari árssprota og langyddari blöð og brum sem ekki eru límug.Áþekkur íslenska reyninum en þekkist frá honum á dökkum, límugum og lítt hærðum brumum en brum, blómsveipar og blöð reynis eru áberandi hærð.Líkist einnig mjög skrautreyni en þá tegund má þekkja á mun blágrænni blöðum sem ekki eru tennt neðan til auk þess sem hann er með töluvert stærri blóm og ber, berin rauð.Svo má nefna að blöðin á S. decora eru aflöng-lensulaga ?oftast jafnbreið að hluta til en mjókka síðan snögglega í oddinn, dökkblágræn og gróftennt. Blöðin á Sorbus americana eru odddregin nánast frá grunni og út í enda, mjókka smám saman fram í enda, fagurgræn, mun fíntenntari og yfirleitt fleiri (7-8 blaðpör) en á skrautreyni. Fræ Sorbus decora, aflengri, ljósari og um helmingi stærri en fræ Sorbus americana. Brum djúprauð á Sorbus americana en svartrauð eða nær svört á Sorbus decora.
Uppruni
M & A N Ameríka (norður til Nýfundnalands).
Harka
2
Heimildir
1, 15
Fjölgun
Sáning, sumargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í raðir, í þyrpingar, í blönduð trjá- og runnabeð, sem stakstætt tré.
Reynsla
Harðgerð og auðræktuð tegund. Þrífst mjög vel í garðinum. Elsta eintakið kom sem nr. 369 frá Montréal HB 1985-86 og er í P2-J07 (efra svæði, norðurbeð) gróðursett 1991. Greining staðfest 2001 og aftur 2007.Ekki auðgreindur frá skrautreyni (S. decora) og sumar heimildir tala um blendinga á milli þeirra, sem reyndar verður að telja vafasamt.