Uppréttur runni. Greinarnar brúnar þegar þær eru ungar en verða grábrúnar með aldrinum, 150-350 sm, með beina eða dálítið bogna, þyrna sem eru breiðir neðst og oft mjög flatir á blómlausum greinum. Axlablöðin mjó, jaðrar sveigjast niður og inn á við.
Lýsing
Laufin sumargræn, smálaufin 7-13, breiðoddbaugótt til öfugegglaga eða kringlótt, 0,8-2 sm í þvermál, snubbótt, oftast hárlaus á efra borði og hærð á því neðra, jaðrar með einfaldar tennur. Stoðblöð engin. Nýpur sléttar. Blómin stök, sjaldan 2 saman, einföld eða hálffyllt, 3,8-5 sm í þvermál. Bikarblöðin heilrend, lensulaga, langydd, laufótt og tennt í endann, hárlaus eða lítið eitt hærð, upprétt og standa lengi á nýpunum. Krónublöðin skærgul. Nýpurnar hnöttóttar eða breiðoddvala, brúnrauðar eða rauðrófurauðar, 1,2-1,5 sm, slétt og hárlaus.
Glóðarrósinni hefur verið sáð í Lystigaðinum í fáein skipti, planta sem sáð var 1994 lifir, gróðursett í beð 2000, vex oft vel en kelur mikið, stundum alveg niður í mold.