Villirós. Greinar oft bládöggvaðar. Þyrnar bognir með breiðan grunn. Runninn er næstum þyrnalaus, verður allt að 200 sm hár, einblómstrandi. Smálauf 5-7, snertast næstum, meðalstór, breiðegglaga til kringluleitari, hárlaus beggja vegna og með bláa slikju. Axlablöð oftast áberandi breið.
Lýsing
Blómin stök eða í 2-4 blóma klösum, fremur stór, rauðbleik, ilma mikið, krónublöð 5 talsins. Bikarblöð með lensu- eða bandlaga flipa, jaðar ögn hærður, bikar kúlulaga. Nýpur hnöttóttar til egglaga, mjög stórar eða allt að 3 sm langar.