Villirós. Kirtilrósin (Rosa davurica) er náskyldur R. majalis. Greinar eru næstum sléttar. Runninn er einblómstrandi, verður um 100-150 sm hár með stóra, ± beina þyrna í pörum við blaðaxlirnar.
Lýsing
Smálauf um 7 talsins, 2,5-3,5 sm löng, aflöng-lenslaga, ydd, hærð og kirtlhærð á neðra borði, jaðrar tvísagtennir, stoðblöð langæ. Blómin 1-3, einföld, bleik og með daufan ilm, bikarblöð heilrend, jaðrar hærðir, upprétt og langæ á nýpunni. Nýpur smáar, 1-1,3 sm, egglaga, sléttar, rauðar.
Þessari tegund var sáð í Lystigarðinum 1983 og plantað í beð 1988, kól nokkuð framan af en kelur nú (2009) lítið eða ekkert. Runninn er um 200 sm hár 2008, blómstrar og þroskar nýpur. Til er önnur planta, sáð 1999, plantað í beð 2004, vex mikið og er orðin 180 sm há 2008, engin blóm.