Villirós. Þyrnar beinir, fremur fáir. Axlablöð breið. Runninn er allt að 250 sm hár með purpuragrænar greinar. Fagurrósin er náskyld R. moyesii, en stilkarnir eru þornhærðir. Smáblöðin smærri, blómin bleik.
Lýsing
Smáblöð 7-9, 1-2,5 sm löng, oddbaugótt, bláleit, hárlaus, miðæðastrengurinn kirtilhærður á neðra borði, amálaufin einsagtennt. Lotublómstrandi. Blómin 1-3, einföld, bleik, ilma, 4-5 sm breið. Krónublöð öfughjartalaga. Blómleggir og nýpur kirtilhærðar. Nýpur miðlungi stórar, 1,5-2,5 sm, sporvala-egglaga, appelsínurauðar, jafnlangar og blómleggirnir.