Þéttgreindur, fíngerður, greinist vel frá grunni, greinar uppréttar, árssprotar meira og minna kirtilhærðir í fyrstu, grænleitir, síðar glansandi og ljósgráir.
Lýsing
Þéttur, stór og mikill runni, allt að 1-2 m hár, greinar hárlausar, ljósgráar. Laufin koma snemma vors, allt að 5 sm, þríflipótti, sjaldan fimmflipótt, breið egglaga-kringluleit, nokkuð dúnhærð á efra borði, hárlaus og glansandi á neðra borði, verða gul með aldrinum. Blómin einkynja, lítil, grængul í uppréttum klösum. Karlklasarnir lengri með 20-30 blómum, kvenklasarnir styttri með 10-15 blómum. Berin skarlatsrauð, hárlaus, döggvuð, langæ, súr.
Í Lystigarðinum eru fáeinar gamlar (um 60 ára) plöntur sem þrífast vel og eru fallegar. Ein er klippt reglulega. Þar að auki eru tvær um 30 ára plöntur upp af fræi, sem líka þrífast vel. Alparifsið heldur laufinu langt fram eftir vetri og er með fallega, skærgula haustliti t. d. nú í nóvember 2011. Afar harðgerður runni og þolir vel klippingu og er vindþolinn. Í limgerði er best að velja plöntur af sama kyni og sama klóni, töluvert breytileg tegund upp af fræi.
Yrki og undirteg.
Nokkur yrki í ræktun bæði hérlendis og erlendis svo sem'Aureum' með lauf sem er skærgult í fyrstu, 'Compactum' er lágvaxið og þéttvaxið yrki.Ribes alpinum 'Dima' - danskt úrval, kvenkyns klónn sem ber mikið af berjum og er með grófar, stífar, uppréttar greinar og dökkgræn blöð. Ribes alpinum 'Hemus' - einnig danskt úrval, karlkyns klónn með kröftugan vöxt, greinar eru frekar grannar og slútandi.