Líkist mjög mikið Ribes burejense F. Schmidt.Lauffellandi, þyrnóttur runni allt að 1 m hár eða dálítið hærri. Smágreinar hárlausar, 3-7 þyrnar við liðina, í krönsum, nállaga, allt að 1 sm langir, stöngulliðir töggóttir.
Lýsing
Brum aflöng, 4-6 mm, ydd, hreistur þunn. Laufleggir allt að 3 sm, hárlausir til lítillega smádúnhærðir. Blaðka laufsins breiðegglaga til hálfkringlótt, 1,5-3 × 3-5 sm, yfirleitt hárlaus, æðar á neðra borði örlítið smádúnhærðar, grunnur þverstýfður til hjartalaga, flipar 3-5, jaðrar gróflega hvass sagtenntir, oddur snubbóttur eða hvassyddur, enda flipinn álíka langur og hinir. Blóm stök eða 2-3 í stuttum klasa, tvíkynja, blómgrein 1-1,2 sm, stoðblöð egglaga til mjó-egglaga, 2-3,5 mm, 3-tauga, oftast hárlaus, blómleggir 3-6 mm, hárlausir eða með lítið eitt af kirtilhárum. Bikar grænhvítur með gulleita eða bleika slikju, krónupípan breið-bjöllulaga, 4-6 mm, hárlaus bæði á ytra- og innra borði, flipar aftursveigðir, útstæðir eða uppréttir þegar aldinið er þroskað, aflangir til spaðalaga, 5-6 mm. Krónublöð hvít, öfugegglaga, 2-3,5 mm. Fræflar ögn lengri en krónublöðin, frjóþræðir hvítir, frjóhnappar egglaga-sporvala. Eggleg hárlaus, sjaldan með örlítið af kirtilhárum. Stíll hárlaus, klofinn um ½ lengd sína. Berin rauð, hnöttótt, 1,2-1,5 sm, hárlaus eða lítið eitt kirtilhærð.
Uppruni
N-Xinjiang (Altai Shan), Mongólía, Rússland.
Harka
3
Heimildir
= Af netinu/flora of China.
Fjölgun
Græðlingar, sáning.
Notkun/nytjar
Í runnabeð.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til ein planta sem sáð var til 1982, kól dálítið framan af, en er annars ágæt, um 1 m há 2011.
Útbreiðsla
Vex í skógarjöðrum, klettabrekkum í 1500-2100 m hæð í heimkynnum sínum.