Þýfður fjölæringur, 10-30 sm hár og um 30 sm breiður. Kröftugir stönglar, sem vaxa upp af greinóttum stöngulstofni. Stönglarnir eru þétt þaktir langæum sinuleifum af dökkbrúnum axlablöðum. Lauf þrífingruð, smálauf leðurkennd, gróftennt, dökk-grágræn og dúnhærð ofan, með grænhvíta lóhæringu og áberandi æðastrengi neðan. Blómin fá, stór, 2-3 sm í þvermál, utanbikarblöð oddbaugótt til egglaga, álíka löng og egglaga-þríhyrnd bikarblöðin eða lengri. Hvert blóm skállaga, með marga fræfla og 5 gullgul krónublöð, sem eru með greinilega sýlingu í endann og appelsínugulan blett við nöglina, þau eru breið-öfughjartalaga, stíllinn næstum toppstæður, breiður við grunninn. Blómin ná rétt upp fyrir laufið.