Sifjamura er fjölær jurt sem getur orðið um 30 sm (10-40 sm) há, með útstæð hár. Hún myndar þúfur með marga, gaffalgreinda blómstöngla sem oft eru mjög grannir og venjulega bogsveigðir.
Lýsing
Laufin eru ýmist á stönglunum og að hluta í hvirfingu við jarðstönglana. Laufin eru fingruð með 5-7(-9) smálauf, græn bæði ofan og neðan. Blaðhvirfingarlaufin eru 7 talsins, öfugegglaga, 2,5 sm löng, fleyglaga við grunninn, með 7-10 tennur sem vita fram á við og með strjál hár á bæði ofan og neðan. Laufleggir með útstæð hár. Legglaufin að mestu leyti fimmfingruð. Stoðblöðin og laufleggurinn eru samvaxin. Blómin eru 5-deild og eru mörg saman í endastæðum, greinóttum klösum. Blómin eru hreingul, 1,5-2 sm í þvermál, lengri en bikarblöðin.
Uppruni
Evrópa.
Heimildir
http://linnaeus.nrm.se, http://www.infoflora.ch
Reynsla
Í Lystigarðinum eru til tvær plöntur sem sáð var undir þessu nafni 1991 og 2004, báðar þrífast vel.
Yrki og undirteg.
Sifjamuru er að hluta skipt í undirtegundina ssp. thuringiaca og undirtegundina ssp. goldbachii (Rupr.) Th Wolf.Tvær murutegundir eru líkastar Sifjarmuru, það eru lómura (P. argentea) en smálaufin á henni eru hvít neðan og glæsimura (P. recta) sem myndar ekki þúfur og er ekki með nein grunnlauf á blómgunartímanum.