Fjölær jurt, 10-30 sm há. Stönglar lauflausir með bogsveigðan grunn, bogadreginn, lítið eitt hærðan blómlegg. Laufin í blaðhvirfingu, með ógreinilegan legg. Blaðkan bandlaga til bandlaga-oddbaugðótt, kjötkennd, heilrend (stundum með fáeinar tennur), næstum hárlaus, með samsíða strengi, grágræn, oft með svarta bletti.
Lýsing
Krónan regluleg, rauðleit, lítil, um 3 mm breið, samvaxin, 4-flipótt, fliparnir himnukenndir. Bikar 4-skiptur. Fræflar 4, frjóþræðir langir, frjóhnappar fölgulir. Frævan samvaxin, einföld fræva. Blómskipunin langt, sívalt (stöku sinnum stutt-hnöttótt) ax. Aldinið hýðisbaukur sem opnast með loki.
Uppruni
V Evrópa að Bretlandseyjum meðtöldum, frá Skandinavíu suður og austur til Spánar, Ungverjalands og Rússlands.