Tré 10-20 m hátt, stundum heldur hærra í heimkynnum sínum, til fjalla myndar það oft breiðu, er oft með brotna krónu, í ræktun er það þó yfirleitt odd-egglaga eða mjó-keilulaga með greinar alveg niður að jörð. Getur síðar oft orðið óregluleg - súlulaga, margtoppa. Börkur grágrænn í fyrstu og sléttur. Á gömlum trjám er hann grábrúnn og langsprunginn. Hliðargreinar stuttar, þétt greindar. Ársprotar með ryðgult filthár á fyrsta ári, á öðru ári svartgrá.
Lýsing
Brum egglaga, 6-10 mm löng, ydd, kvoðug. Brumhlífar þétt aðlægar, langar og langyddar, oddar dálítið uppstæðir. Nálar beinar, allt að 5 í þéttum, pensillaga knippum á endum greinanna, lifa í 3-5 ár, fremur stinnar, beinar 5-8(-12) sm langar, þrístrendar, snubbóttar-odddregnar, jaðar fíntenntur, dökkgrænar neðan og ekki með loftaugu. Hliðarnar sem snúa upp eru með bláhvítar loftaugarendur, kvoðagangur í blaðholdinu (parenchym), nálaslíður skammæ, detta af á 1. ári. Könglar myndast fyrst á trénu þegar það er orðið 60-80 ára, endastæðir á stuttum legg, snubbótt-egglaga, (4-)6-8 sm langir, (4)5 sm í þvermál, ungir fjólubláir/purpuralitir, fullþroska brúnir, opnast ekki en detta af með fræinu í á 3. ári. Hreisturskildir þykkir, breið-tígullaga, allt að 2 sm breiðir með lítinn, hvítan þrymil. Fræ yfirleitt 2 rauðbrún, 10-12 mm löng, 6-7 mm breið og ekki með væng, æt. Fræ 10-12 x 6-8 mm, vængjalaus, æt, spíra seint.
Uppruni
Mið Evrópa, (Alpar, 1300-2000 m h.y.s., Karpatafjöll 1300-1600 m h.y.s.), Síbería.
Harka
4
Heimildir
1, 7, 9
Fjölgun
Sáning.
Notkun/nytjar
Þyrpingar, skógrækt, afar falleg sem stakstætt garðtré.
Reynsla
Í Lystigarðinum eru tvær gamlar plöntur til, þrífast vel, ekkert kal.Harðgerð, hægvaxta, skýla þarf ungplöntum fyrstu árin. Lindifuru var fyrst plantað á Grund, Eyjafirði 1900 og Þingvöllum 1901. Stór reitur í Mörkinni, Hallormsstað er frá 1906.
Yrki og undirteg.
Fjölmörg yrki í ræktun erlendis sem vert væri að prófa hérlendis. T.d. 'Aurea' og 'Aureovariegata' með gylltum nálum, 'Compacta Glauca' þétt, keilulaga með mjög uppsveigðum greinum, 'Kairamo' mjög þétt, 'Monophylla' hægvaxta, óreglulegt í vexti og smávaxið, 'Nana' þétt, pýramídalaga, smávaxið, 'Pendula' með niðursveigðar eða hangandi greinar, 'Pygmaea' dvergform aðeins um 40 sm, 'Stricta' mjósúlulaga með uppsveigðar greinar og 'Variegata' nálar með gulum strípum
Útbreiðsla
Mikilvæg garðplanta (í Þýskalandi). Það má ekki þrengja að henni! Helst norðan í móti í mjög góðu rými og í hörðu loftslagi með miklum loftraka og leirkenndum jarðvegi.