P. rubra (Du Roi) Link non (I.C.Rich.) A.Dietr., P. australis Small.
Lífsform
Sígrænt tré.
Kjörlendi
Sól (hálfskuggi).
Blómalitur
Kk reklar gulir, kvk reklar rauðir.
Blómgunartími
Maí-júní.
Hæð
10-15 m
Vaxtarlag
Tréð getur orðið allt að 30 m hátt í heimkynnum sínum. Króna mjó-keilulaga. Börkur rauðbrúnn, rákóttur. Greinar stuttar, grannar. Lík svartgreni (P. mariana) en nálar mjórri, hvassyddari, grasgrænni og bogna inn að greininni og könglar eru skammærri.
Lýsing
Brum egglaga, allt að 5 mm löng, ydd. Endabrum með sýllaga, hærða grunnbrumhlífar, sem brumin skaga fram úr. Ársprotar brúnir með þétta, stutta burstahæringu. Barrnálar 10-15 mm langar, yddar, með brjóskkennda odda, ± sigðlaga, gulgrænar, glansa mikið, ferkantaðar og með 3-5 loftaugarendur á öllum hliðum. Könglar eru aflangir, 3-4 sm langir, 1,5-2 sm breiðir. Ungir könglar eru grænir eða purpuralitir, fullþroska eru þeir glansandi og rauðbrúnir, nokkuð kvoðugir. Köngulhreistur öfugegglaga, stinn, bogadregin, heilrend eða lítillega og óreglulega tennt.
Uppruni
N Ameríka.
Harka
3
Heimildir
1,2,7,9, Roloff/Bärtels 1996: Gehölze
Fjölgun
Sáning, sumar- og vetrargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í skjólbelti, í limgerði, í þyrpingar, í skógrækt eða sem stakstætt tré.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til eitt tré sem sáð var til 1999, gróðursett í beð 2001, er fallegt, þrífst vel, toppkal 2006, annars ekkert kal.
Yrki og undirteg.
Örfá yrki í ræktun erlendis sem vert væri að prófa betur. T.d. 'Nana' breiðkeilulaga, lágvaxið, ungar greinar útbreiddar, mjög stuttar og rauðmengaðar; 'Virgata' grannvaxið og fíngert yrki.