Tré allt að 25 m hátt í heimkynnum sínum, en lægra hjá okkur, keilulaga í vextinum, þéttvaxið með láréttar, grófar greinar, þær efri uppréttari, grennri greinar slútandi.
Lýsing
Bolur 1-2 m í þvermál, börkur þunnur, grábrúnn með hreistur. Greinar fremur sterkbyggðar, slútandi við stofninn en greinaendarnir vita aftur upp á við, nokkurn veginn láréttar á ungum trjám og fremur þéttstæðar. Árssprotar hvítgulir til gulbrúnir, döggvaðir í fyrstu seinna gljáandi, hárlausir, kröftugir. Brum egglaga allt að 6 mm löng, ljósbrún, neðri brumhlífar kjalaðar og með litla odda, efri brumhlífar vísa frá, eru snubbótt, kvoðulaus. Barrnálar mattar, blágrænar til hvítgrá, 10-18 mm langar, að ofan er hvor hlið með 2-3 og neðan með 3-4 loftaugaraðir. Marðar nálar lykta eins og sólber (Ribes nigrum). Nálarnar eru mjög þéttstæðar, fremur stinnar. Könglar síval, mislangir á sömu greininni, 3,5-5 sm, 1,2-2 sm breiðir, ungir grænir, fullþroskaðir ljósbrúnir. Köngulhreistur mjúk, auðsveigð, jaðar bogadreginn og heilrendur. Hreisturblöðkur litlar og innilokaðar.
Uppruni
Nyrsti hluti NA Ameríku, Kanada (-70°N).
Harka
2
Heimildir
= 1,7,9
Fjölgun
Sáning, sumargræðlingar í þokuúðun, vetrargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í þyrpingar, sem stakstæð tré, í skjólbelti, í limgerði.
Reynsla
Tré af ýmsum aldri eru til í Lystigarðinum. Þau verða stundum fyrir lúsafaraldri, þrífat annars vel.Víða í ræktun hérlendis. Harðgert, seinvaxið, vindþolið og nægjusamt tré. Skýla þarf ungplöntum. Fyrst gróðursett á Þingvöllum 1899. Flestum grenitegundum nægjusamara.
Yrki og undirteg.
Picea glauca 'Conica' verður allt að 4 m á hæð, mjög hægvaxta, keilulaga króna, reglulegt í vexti, mjög þétt, nálar grannar um 10 mm að lengd, ögn grænbláleitar - hefur reynst vel í garðinum (innflutt yrki). Nokkur önnur yrki af aðalegund í ræktun erlendis t.d. 'Echiniformis', 'Lilliput', 'Little Globe' og 'Nana' sem eru öll lágvaxin, meira eða minna kúlulaga. Þar fyrir utan má nefna til dæmis 'Pendula' slútandi, 'Caerulea' að 2 m þétt pýramídalaga með silfurbláu barri og mörg fleiri mætti nefna og koma þau öll til greina í ræktun hérlendis.Picea glauca var. albertina (S. Br.) Sarg., árssprotar hærðir, brum aðeins kvoðug, barrnálar að 2,5 sm - er í uppeldi, lítt reynd enn sem komið er. Heimkynni: Kanadahluti Klettafjalla. (= Picea glauca skv. USDA).Picea glauca v. porsildii Raup. Barrið stutt, dúnhærðir árssprotar. Heimkynni Alaska og Yukon. - ekki reynd enn sem komið er, en ætti að henta vel hérlendis. (= Picea glauca skv. USDA)