Sígrænn fjölæringur, allt að 30 sm hár í blóma með lauf sem mynda þétta, flata, sammiðja hvirfingu, sem er allt að 30 sm í þvermál.
Lýsing
Blómin hvít. Grunnlauf 3-14 × 1-4 sm, spaðalaga, öfuglensulaga eða öfugegglaga, djúpgræn og ögn bláleit, stundum með bleika slikju, þykk og kjötkennd, mjókka að grunni og mynda væng, leggur með kjöl. Stöngullauf 5-10 mm, stakstæð, aflöng til egglaga, minna á stoðblöð. Blómskipunin myndar fremur þétta skúfa, 10-30 sm langa. Blómin 2-4 sm í þvermál, bikarblöðin 2 talsins, 4-6 × 3,5-7 mm hálfkringlótt eða breiðegglaga. Krónublöðin eru 7-10 talsins, 10-20 × 3-6 mm, öfuglensulaga, öfugegglaga eða spaðalaga, blómin hreinhvít. Fræflar 5-12 mm.