Myndar breiður, jarðlægra, rótskeyttra stöngla. Fjölær, 5-10 sm, stundum hærri. Hvirfingarlauf í þéttu brumi við blómgun, ekki auðséð. Blóm mun dekkri en á heiðvendi (G. farreri). Blómin lokast á kvöldin og í dimmviðri.
Lýsing
Stöngullauf gagnstæð, ekki áberandi aftursveigð, lensulaga, mjókka ekki að grunni, ydd, 2-3 sm x 1,5-4 mm, örsmáar strjálar tennur á jöðrunum.Blómin legglaus eða með mjög stuttanlegg ofan við efstu stöngullaufin. Bikarflipar, krónuflipar og fræflar 5. Bikarpípa 9-22 mm, bikarflipar 8-26 mm, samsíða, aðlægir. Króna trektlaga, djúpblá, ljósari á innra borði, en með 5 purpuralitum grænköntuðum rákum á ytra borði, pípa 4-6,5 mm með útstæða, snubbótta eða ydda flipa, 7-8 mm. Aldinhýði með legg.
Skipting að vori er auðveld, sáning að hausti (þroskar ekki fræ hérlendis).
Notkun/nytjar
Í steinhæðir, í kanta, í fjölæringabeð, í breiður, í ker.
Reynsla
Harðgerð planta, árviss blómgun í Lystigarðinum, víða ræktuð um allt land. Vex hraðar en heiðvöndurinn og myndar fljótt breiður af skriðulum, blöðóttum stönglum.
Yrki og undirteg.
'Alba' er með hvít blóm.'Praecox' Blómin eru með legg, krónan pípu- til trektlaga, blómgast 2-3 vikum fyrr en aðaltegundin, skærblá blóm sem sjást að langar leiðir í september nóvember.Yrki sem ekki hafa verið prófuð eru m.a. 'Angel's Wings' er með blóm með mismikilli hvítri slikju. 'Ann's Special' er kröftug planta með milliblá blóm. 'Blauer Dom' er kröftug planta með djúpblá blóm. 'Leslie Delaney' vex fremur hægt, blómin fölblá, haustblómstrandi. 'Mary Lyle' er allt að 10 sm há planta, blómin hvít, ginleppar með bláa, haustblómstrandi. 'Woolgreaves' (Woolgreave´s Variety') er kröftug planta sem blómstrar lengi, blómin sterkblá.