Betula alba v. pubescens, Betula alba ssp. pubescens
Lífsform
Tré
Kjörlendi
Sól
Blómalitur
Grænleitur
Blómgunartími
Apríl
Hæð
10-13 m
Vaxtarhraði
Hraðvaxta
Vaxtarlag
Lauffellandi tré, allt að 20 m hátt og 10 m breitt í heimkynnum sínum, sjaldan 25 m hátt, en mun minna hérlendis. Börkur flagnar af í pappírskenndum ræmum/næfrum, móhvítum til ljósbrúnum, með dökka, lárétta korkbletti. Krónan grönn, smágreinótt. Ársprotar uppsveigðir, aldrei hangandi, stinnir, dúnhærðir ungir, aldrei vörtóttir.
Lýsing
Lauf 3-6 × 2,5-5 sm, breið-egglaga eða egglaga-oddbaugótt til tígullaga, gróf eða óreglulega tvísagtennt, oddur beinn, blaðkan mjókkar að grunni, er bogadregin eða hjartalaga, þunn, mjúk, meira eða minna dúnhærð bæði ofan og neðan, oft langhærð ung, með 5-7 pör af æðastrengjum, laufleggir dúnhærðir. Blómin eru einkynja (hvert einstakt blóm er annað hvort karlkyns eða kvenkyns en bæði kynin er að finna á sömu plöntunni). Vindfrævun. Þroskaðir kvenreklar 2-2,5 sm, rekilhreistur dúnhærð, miðflipinn lengri en bogsveigðir hliðafliparnir. Hnotir egglaga, mjög smádúnhærðar, við oddinn, með væng sem er 1-1,5 × breiðari en hnotin.
Uppruni
Evrasia (M Evrópa til V Síberíu).
Sjúkdómar
Ryðsveppur, birkifiðrildi.
Harka
1
Heimildir
= 1, http://www.pfaf.org
Fjölgun
Sáning, sumargræðlingar
Notkun/nytjar
Í limgerði, í skjólbelti, í þyrpingar, sem stakstæð tré, í beð.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til margar plöntur undir þessu nafni sem sáð hefur verið á ýmsum tímum, þrífast vel og kala lítið eða ekkert. Harðgerð, íslensk tegund, vindþolin, grunnstæðar rætur. Vex villt nánast um allt land.Ýmis not eru af birki. Birkisafinn er notaður sem svaladrykkur, til bjórgerðar, lauf í te, sem lækningaplanta, til litunar, viður til smíða, sem eldiviður, til kolagerðar, í pappír, birkið er notað sem uppgræðsluplanta og margt fleira. Afbragðs tré fyrir villt dýr og fugla.