Grannt tré sem getur orðið allt að 20 m á hæð í heimkynnum sínum en mun lægra í ræktun hérlendis. Börkur sléttur, perlugrár, greinar með grá dúnhár.
Lýsing
Lauf 4-10 sm, sjaldan 13×6 sm, breið-egglaga eða oddbaugótt, grunnur bogadreginn eða fleyglaga. Jaðrar með stóra tennur, við enda hvers æðastrengs er hver tönn tennt aftur. Laufin hrukkótt, mattgræn ofan, með aðlæg hár aðeins í fyrstu og með hvít-grá dúnhár á neðra borði, stöku sinnum hárlaus, æðastrengjapör 9-14, laufleggir 1,5-2 sm, ögn dúnhærðir. Karlreklar 5-10 sm, 3-4 saman. Aldin 1,5 sm, egglaga, 4-12 saman, legglaus eða með stutta leggi.
Uppruni
N Evrópa, Kákasus.
Harka
2
Heimildir
1
Fjölgun
Sáning, sumargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í þyrpingar, sem stakstæð tré, í skjólbelti, í blönduð beð.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til eintak frá því um 1957, frá tíma Jóns Rögnvaldssonar, stór og mikil hrísla með fjölda rótarskota. Svo og fjórar plöntur sem sáð var til 1985 og gróðursettar í beð 1990 og 1991. Einnig ein planta sem sáð var til 1998 og önnur sem sáð var til 1990, báðar gróðursettar í beð 2000 og að lokum ein sem sáð var til 1995 og gróðursett í beð 2004. Allar þrífast þær vel. Harðgert tré sem vex vel í Lystigarðinum og kelur lítið. Getur stundum vaxið sem margstofna runni.
Yrki og undirteg.
Mörg yrki og form eru í ræktun erlendis sem eru lítt eða ekki reynd hérlendis en ættu að geta staðið sig vel og full þörf á að prófa þau sem flest.