Vex í hálfgrónum melabörðum, vegaköntum, þurrum melbrekkum og sandi.
Blómalitur
Dökkfjólublár, hvítur og gulur
Blómgunartími
Maí-júní
Hæð
0.05-0.25 m
Vaxtarlag
Einær eða skammær jurt, 5-25 sm á hæð. Stönglar eru oftast marggreindir neðan til, jarðlægir, uppsveigðir, eða uppréttir.
Lýsing
Öll blöðin eru gróftennt, stutthærð. Neðstu blöðin nær kringlótt eða sporbaugótt en þau efri öfugegglaga eða lensulaga. Axlablöðin eru stór og fjaðurskipt með allstórum endableðli.Blómin eru dálítið breytileg að lit en alltaf þrílit eins og viðurnafnið tricolor (þrílit) segir til um. Blómin eru 1,5-2,5 sm á lengd, einsamhverf og drúpandi. Krónublöðin eru 5, 2 efstu eru dökkfjólublá. Neðsta/mið krónublaðið er hvítleitt eða gult í miðju með dekkri æðum og svo á einnig við um neðri hluta þeirra tveggja krónublaða sem sitja sitt hvoru megin við það. Bikarblöðin eru odddregin til enda en breiðari og snubbótt neðan til, grágræn eða nær svört. Sporinn er dökkur í endann. Fræflar 5 og frævan þríblaða með einum stíl. Aldinið klofnar í þrennt við opnun. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Engar. Auðgreind frá öðrum fjólum á blaðlögun og litskrúðugum þrílitum blómum. Mörg skáld hafa ort fallega um fjóluna og má þar t.d. nefna séra Pál Jónsson “Heiðbláa fjólan mín fríða, fegurð þín gleymist mér seint...“ og Sigurð Elíasson sem á textann við Litlu fluguna – “Lækur tifar létt um máða steina, lítil fjóla grær við skriðufót ... ”Þrátt fyrir lofið má þess geta að fjólur verða oft að hinu argasta illgresi í görðum sem getur verið erfitt að uppræta.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Í gömlum grasaritum er latneskt heiti herba trinitatis og var ranglega þýtt heilagrar þrenningar jurt, því að það mun ekkert hafa með heilaga þrenningu að gera. Jónas Hallgrímsson kallar tegundina brekkusóley í Hulduljóðum. Blóðsóley hefur hún líka verið nefnd, en algengustu nöfnin eru þrílit fjóla og þrenningargras, -jurt, -fjóla. Sé hnefafylli af ferskum blöðum soðin í mjólk og tekin inn kvölds og morgna er talið, að það eyði hrúðurkvilla í húð.” (Ág.H.)
Útbreiðsla
Allalgeng frá Snæfellsnesi norður í syðstu sveitir Barðastrandarsýslu, á Norðurlandi vestan Eyjafjarðar og á Héraði. Sjaldgæf í öðrum landshlutum eða vex þar aðeins sem slæðingur. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, Ástralía, Nýja Sjáland, N og S Ameríka, temp. Asía, Rússland o.v.