Fjölær planta með skriðulum, rótskeyttum, uppsveigðum stönglum, 20-40 sm á hæð. Öll plantan meira eða minna hærð.
Lýsing
Grágræn, stilkstutt, gagnstæð blöð, egglaga eða oddbaugótt, 2-7 sm á lengd og 1,5-3,5 sm á breidd, tennt, tennur misstórar.Blómin í efri blaðöxlunum, mörg saman í klösum, stuttleggjuð, 4-6 mm í þvermál, fjórdeild. Krónublöðin ljósblá með dekkri æðum. Bikarinn kirtilhærður með fjórum flipum. Ein fræva og tveir fræflar. Fræva með löngum, bognum stíl og verður að hjartalaga aldini við þroskun. Blómgast í júlí-ágúst. LÍK/LÍKAR: Auðþekkt frá öðrum deplum þar sem hún er áberandi loðin og með stórum, tenntum blöðum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Gömul og virt lækningaplanta, eins og nafnið læknisæruprís gefur til kynna. Hún er talin svita-og þvagaukandi og losa uppgang frá brjósti. Stillir blæðingar. Með seyði urtarinnar voru hreinsuð ill sár og ský tekin af augum. Gott þótti að drýgja tóbak með rótardufti og jafnvel að taka það í nefið. Trúa manna var, að það styrkti bæði höfuð og sjón.”
Útbreiðsla
Allalgeng víða um land einkum á Suður- og Vesturlandi og í sumum útsveitum norðanlands.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Ástralia, Kanada, Chile, Grænland, Balí, Mexíkó, Evrópa, Azoreyjrar, N Ameríka