Vex í snjódældum, mólendi og kjarri í snjóþyngri sveitum landsins og er þar nokkuð algengt. Finnst yfirleitt ekki á láglendi í snjóléttari byggðarlögum.
Blómalitur
Grænhvítur m. rauðu ívafi
Blómgunartími
Júní
Hæð
0.10-0.20 m
Vaxtarlag
Lauffellandi smárunni sem er yfirleitt 10-20 (-30) sm á hæð. Stönglar jarðlægir en uppsveigðir til enda, hvassstrendir, blöðóttir og ljósgrænir.
Lýsing
Blöðin stakstæð, egglaga, fínsagtennt, ljósgræn báðum megin, þunn og himnukennd. 10-20 mm á lengd, og 7-12 mm á breidd og mjókka oftast fram í v-laga odd.Blómin fimmdeild, yfirleitt neðarlega á árssprotum, einstæð eða 2 saman, 6-8 mm í þvermál.Krónan grænhvítleit, oftast rauðmenguð og með 5 afturbeygðum, grænleitum tönnum. Krónuopið þröngt en belgvítt. Bikarinn fjólublár, skífulaga og flipalaus. Fræflar 10 með appelsínugulum frjóhnöppum. Ein fræva með einum stíl. Aldin fræmargt, safamikið ber um 1 sm í þvermál, ýmist dökkblá eða nær svört en stundum ljósari og bládöggvuð af þunnu vaxlagi sem auðveldlega má strjúka af. Berin æt, alltaf með rauðu aldinkjöti, súrsæt og bragðgóð, ýmist borðuð fersk eða notuðu í sultu, hlaup eða saft. Blómgast í júní. 2n=24.LÍK/LÍKAR: Bláberjalyng. Aðalbláberjalyngið auðþekkt á grænum, hvassstrendum greinum, tenntum blöðum og á lögun blómanna og rauðu aldinkjöti.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Notkun/nytjar
Ber, blöð og rót þessarar jurtar, kæla, mynda himnu og varna rotnun. Þau eru því góð við niðurgangi, köldu og skyrbjúgi, líka til að þurrka upp vessa í slæmum sárum. Blöðin á að taka í júni, en berin snemma í september, þegar þau eru fullvaxin. Af seyði úr berjum og blöðum skal taka tvær matskeiðar í senn annan hvern klukkutíma. Dufti sem búið er til af rótinni er gott að strá í sár með drepi. Úr berjunum má búa til mauk, með þeim móti að merja þau og blanda þau síðan með sykri eða hunangi og geyma. 1 matskeið af mauki þessu, blandað með 1 pela af vatni er gott að gefa sjúklingi sem er veikur af pest, við þorsta og hita. Ef berin eru marin og sett í járnílát og síðan sett við yl, súrna þau og verða að svörtum legi sem gefur góða hlífðarhúð (hrúður) á skinn. Ef í þau eru líka sett kalsíumsúlfat og soðin, lita þau lín og ull fjólublátt eða rústrautt ef eins er farið með blöðin lita þau gult.Nýttir plöntuhlutar: Blöð og ber. Söfnun: Snemma í ágúst.Virk efni: Lífrænar sýrur, slímefni, sykrur, ýmis steinefni, barksýrur og A- B- og C-vítamín. Áhrif: Barkandi, sýkladrepandi, kælandi. Blöðin minnka sykurmagn í blóði.Notkun: Þurrkuð ber og blöð eru mjög góð gegn þrálátum niðurgangi og einnig gegn særindum og bólgu í þörmum.Þá má nota þau í skol gegn bólgu og særindum í munni.Fersk ber virðast koma reglu á hægðir (nema þau séu etin í óhóflegu magni, þá geta þau valdið niðurgangi hjá sumum).Berin örva matarlyst og eru talin reka út spóluorma. Blöðin eru góð við blöðrubólgu (sérstaklega þeirri sem orsakast af saurgerlum) og til þess að minnka blóðsykur.Skammtar: Urtaveig með þurkuðum berjum og blöðum: 1:5, 45% vínandi, 2-3 ml þrisvar á dag.Te: 1:10, 25-50 ml þrisvar á dageða 1 tsk:1 bolli af vatni, drukkið þrisvar á dag. Te og þynnt urtaveig í skol.Fersk ber etin.Varúð! Blöðin geta valdið eitrun séu þau notuð lengur en 3-4 vikur í senn. Blöðin eru ekki æskileg fyrir börn. (ísl. lækingajurtir)
Útbreiðsla
Algengt á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi frá Ölfusá/Hvítá norður um og suður í Suðursveit. Sjaldgæft á hálendinu og á Suðurlandi, vantar að jafnaði þar sem snjólétt er á láglendi.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Temp. Asía, N Ameríka, Evrópa, Grænland o.v.