Utricularia minor

Ættkvísl
Utricularia
Nafn
minor
Íslenskt nafn
Blöðrujurt
Ætt
Lentibulariaceae (Blöðrujurtaætt)
Samheiti
Lentibularia minor (L.) Raf.
Lífsform
Fjölær vatnajurt - dýraæta
Kjörlendi
Vex í mógröfum, tjörnum, pollum og smátjörnum í votlendi, yfirleitt í töluvert miklum flækjum. Fremur sjaldgæf en hefur fundist hér og þar um landið.
Blómalitur
Gulur
Blómgunartími
Ágúst
Hæð
0.10-0.20 m
Vaxtarlag
Rótlaus vatnajurt, sem flýtur eða marar í vatni. Stönglar hárfínir, marggreindir með gisstæðum blöðum. Jurtin myndar oft allmiklar flækjur í vatninu, oftast 10-20 sm langar greinar, marandi í hálfu kafi. Blómgast sjaldan hérlendis, en fjölgar sér með sérkennilegum blaðhnyklum (blómguð eintök hafa þó fundist, t.d. á Hólum í Reykjadal).
Lýsing
Blaðsprotar marggreindir og hafa tálknkennd, marggreind blöð með oddmjóum flipum. Á blaðflipum eru örsmáar (1,5-2mm) veiðiblöðrur. Blöðrurnar fölgrænar, hálfgagnsæjar, hliðflatar og aflangar. Oftast eru þær fullar af smáum vatnalífverum sem sogast inn í blöðruna vegna undirþrýstings í henni. Plantan gefur frá sér ensím sem leysa smádýrin upp og þau nýtast henni þannig til vaxtar og viðhalds. Blómin gul, hálflútandi eða lútandi, gisstæð í blómfáum, endastæðum klasa á uppréttum blómstönglum sem standa upp úr vatninu. Blómin heilkrýnd og blómginið mjög þröngt. Krónan varaskipt, 7-10 mm á lengd að sporanum meðtöldum. Blómgast í ágúst. LÍK/LÍKAR: Engar. Blöðrurnar eru ákaflega öruggt einkenni.
Heimildir
2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Fundin allvíða í kringum landið, er líklega orðin sjaldséðari í seinni tíð síðan hætt var að grafa mógrafir og land hefur víða verið þurrkað. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Ástralía, Kanada, Evrópa, Grænland, Japan, Mexíkó, Rússland, N Ameríka.