Vex í ýmiss konar valllendi, túnum, giljum og á melum og er víða í vegköntum.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Júní-ágúst
Hæð
0.10-0.15 m
Vaxtarlag
Blað- og blómstönglar sveigjast upp af jarðlægum, skriðulum, óholum jarðstönglum sem rætir sig við stöngulliðina. Stönglar oft greindir neðan til, blómleggir uppréttir eða uppsveigðir og geta orðið 10-15 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin þrífingruð, á 5-10 sm löngum og oft sveigðu stilkum upp af láréttum jarðstönglinum. Smáblöðin mjög stilkstutt, öfugegglaga eða öfughjartalaga, oftast fínlega skarptennt, og eru einkum æðastrengirnir oddhvassir og mynda tennur sem standa út fyrir blaðröndina. Smáblöðin venjulega með ljósri, odd- eða bogadreginni rönd þvert yfir blaðið. Axlablöðin samvaxin, himnukennd. Að kveldi, þegar skyggja tekur falla blöðin saman eins og á öðrum smárategundum. Talið er að það sé til að draga úr varmaútgeislun yfir nóttina.Blómin fimmdeild, mörg saman í þéttum, nær hnöttóttum, endastæðum kollum á löngum stilkum, blómstilkar ávallt lengri en blaðstilkar. Neðstu blómin springa út fyrst og þau efstu síðast. Kollurinn 1,5-2,5 sm í þvermál, alltaf efst á uppréttum hliðarstöngli. Blómin samhverf, heilkrýnd og stuttstilkuð. Krónan hvítleit, 8-10 mm á lengd, krónublöðin samvaxin neðan til. Bikarinn um helmingi styttri en króna, ljós með dökkgrænum taugum, klofinn tæplega að miðju og lítt eða ekki hærður. Bikarfliparnir oddmjóir, himnurendir, einkum í greipunum. Fræflar 10, huldir af krónunni. Frævan ein. Við aldinþroskunina falla krónublöðin ekki af og því verður blómkollurinn smám saman brúnn og brúnni eftir því sem aldin þroskast. Aldin hnotkenndir litlir belgir, hver með 3-4 fræjum. Skordýrafrævun. Blómgast í júní-ágúst. LÍK/LÍKAR: Túnsmári (Trifolium hybridum) líkist hvítsmára, en hann er allur stærri og með uppréttari hola, stöngla og blóm sem eru hvít í fyrstu en verða rauðbleikleitari með aldrinum og mjög ilmsterk. Smáblöðin eru aldrei öfughjartalaga heldur sporbaugótt og enginn blettur á þeim. Belgurinn með 2 fræjum. Hann hefur einnig verið nefndur alsikrusmári í eldri flórum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Te af blöðum þótti gott við bólgu, brjóstveiki, gulu og einkum ígerðum. Grauta af blöðum og blómum var talið gott að leggja við bólgur. Sé rótin skorin smátt og seydd í mjólk, er hún besti matur.”
Útbreiðsla
Útbreiddur um land allt, a.m.k. á láglendi nema fremur fátíður í sumum sveitum Vestfjarða og Norðausturlands. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, N Afríka, V og M Asía og auk þess víða ílendur í tempraða beltinu.