Vex helst þar sem snjór liggur eitthvað frameftir til dæmis í grasbrekkum á móti suðri.
Blómalitur
Bláfjólublár
Blómgunartími
Júlí-ágúst
Hæð
0.15-0.35 m
Vaxtarlag
Fjölær jurt, 15-35 sm. Jarðstöngullinn þykkur og þverstýfður að neðan. Stönglar, langir, blaðfáir, uppsveigðir, oftast ógreindir og hver með 4-6 gagnstæðum blöðum.
Lýsing
Stofnblöðin í hvirfingu, gishærð, stilkuð, oddbaugótt eða lensulaga, allstór, 3-12 sm á lengd og 2-5 sm á breidd, nær heilrend.Blómin í kolli sem minnir að sumu leiti á körfu fífla. Blómin bláfjólublá, sjaldnar hvít, þéttstæð, mörg saman í hnöttóttum kolli, sem er 1,5-2 sm í þvermál. Einstakt blóm fjórdeilt, með fjórum fræflum, einum stíl og 5-6 mm í þvermál. Hreisturkennt háblað stendur við hvert blóm. Bikar- og krónublöð hvíthærð á ytra borði. Blómgast í júlí-ágúst. LÍK/LÍKAR: Rauðkollur (Knautia arvensis) er sjaldgæfur slæðingur, sem líkist ofurlítið stúfu, en kollurinn er mun rauðari og flatur og líkist því enn fremur körfu í lögun. Auðgreindur frá stúfu á blöðunum sem eru fjaðurskipt.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Djöflinum var meinilla við lækningaplöntur og reyndi að sporna við notkun þeirra. Eitt ráða hans var að bíta stórt stykki af jarðstöngli stúfunnar til þess að eyða henni. Af þessu tiltæki djöfsa er nafnið púkabit dregið. Hreisturkenndu háblöðin minna á flösu þegar þau falla og því var seyði urtarinnar talið gott meðal við henni, svo og við hósta og hálsbólgu. Í Danmörku var konum ráðlagt að setja stúfu undir kodda eiginmanna, ef þær héldu þá ótrúa sér, og áttu þeir þá að láta af þeim óvana”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Allvíða á Suðurlandi í sólríkum brekkum frá suðurströnd Reykjanesskaga austur í Fljótshverfi. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Alsír, Kanada, Evrópa, Balí, Mexíkó, Malí, N Ameríka.