Vex í tjörnum, vötnum, skurðum og litlum stöðuvötnum.
Blómgunartími
Júlí
Hæð
0.30-0.75 m
Vaxtarlag
Fjölær jurt með skriðulum jarðstöngli og tvíhliðstæðum blöðum, sem oft eru fljótandi, stönglar grannir og linir, 30-75 sm á lengd.
Lýsing
Bæði blöðin og stoðblöðin eru löng og mjó og fljóta ofan á vatninu. Blöðin eru flöt, bandlaga, 6-50 sm á lengd, þau neðri lengri og 2-5 mm á breidd, þau efri styttri, 6-10 mm á breidd við blaðfótinn. Blómin einkynja, í hnöttóttum kollum ofan til á stönglum sem oft rísa örlítið upp frá yfirborðinu, karlblóm í þeim efstu, en kvenblóm í 2-3 þeim neðri, neðstu kollarnir oft á löngum stilk. Karlkollarnir einn til þrír, þétt saman, frjóþræðir um 5 mm á lengd en frjóhnappar aðeins um 1 mm í þvermál. Fræflar þrír í hverju karlblómi og ein fræva í hverju kvenblómi. Fullþroska kvenkollar verða um 1-1,5 sm í þvermál. Blómhlífarblöðin brúnleit, himnukennd og lítt áberandi. Karlkollarnir oftast visnir og fallnir vð aldinþroska. Ald¬inið egglaga, langgárótt, mógrænt eða dökkbrúnt, með mitti, 3-5 mm á lengd með alllangri trjónu. Blómgast í júlí. LÍK/LÍKAR: Tjarna- og mógrafabrúsi. Mógrafabrúsinn hefur minni kolla en trjónubrúsinn og styttri, trjónulaus aldin.
Heimildir
2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Fremur sjaldgæfur en fundinn á víð og dreif um landið, einna algengust á Norðaustur- og Austurlandi. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Kanada, Evrópa, Færeyjar, Grænland, Mexíkó, Rússland, N Ameríka.