Vex hér og þar um landið, einkum í birkiskógum og giljum, auk þess sem hann er víða í ræktun í görðum.
Blómalitur
Hvítur-rjómahvítur
Blómgunartími
Júní
Hæð
5-10 m villtur - hærri í ræktun
Vaxtarlag
Lítið eða meðalstórt tré, yfirleitt einstofna með ávalri krónu. Vex sem margstofna runni við lakari aðstæður. Verður 60-140 ára eftir aðstæðum á hverjum stað. Greinar gráar og uppréttar á ungum trjám en síðar útstæðari. Árssprotar grábrúnir og hærðir í fyrstu en verða nær hárlausir með aldrinum. Börkur þunnur, sléttur, ljósgrár-dökkgrár með láréttum barkaropum og lyktar illa. Brunin dökk, meira eða minna loðin, sérstaklega á endum bruma. Endabrum áberandi stærst og loðnast. Tré af íslenskum uppruna eru að jafnaði með uppstæðar greinar.
Lýsing
Blöðin stór, stakfjöðruð, 10-20 sm á lengd með 6-8 smáblaðapör. Endablaðið ekki áberandi stærra en hin. Smáblöð 2-6 sm á lengd, mattgræn og hárlaus á efra borði en gishærð til dúnhærð og grágræn á því neðra, langlenulaga, ydd og sagtennt að minnsta kosti ofan miðju og stundum meir. Blómin rjómahvít í stórum hálfsveipum. Blómin um 10 mm í þvermál, þefill, með 5 þríhyrnd, hvíthærð bikarblöð, fimm krónublöð og marga fræfla sem eru jafnlangir krónublöðum. Ein fræva í lítllega hærðu egglegi með 3-4 stílum. Blómleggir og bikarar loðnir. Aldin þrírýmd skinaldin (ber), rauðgul, rauð eða dökkrauð, kúlulaga, 8-10 mm í þvermál. Fræ sporöskjulaga, ljósbrún og um 4 mm á lengd fullþroskað. Gulir – rauðbrúnir og jafnvel rauðir haustlitir mismunandi áberandi frá ári til árs.Villtur reyniviður vex á stangli innan um birki og myndar ekki eiginlega skóga hérlendis. Reyniviðartrén hærri og standa að jafnaði upp úr birkikjarrinu og eru því alláberandi um blómgunartímann sem og í sínum rauðu haustlitum.
Heimildir
LA, 9, HKr
Reynsla
“Berin þykja afbragð í mauk. Fyrst eru þau látin í vatn og suðunni hleypt upp. Það er gert til þess að fá óbragð úr þeim. Síðan er farið með þau á sama máta og við tilbúning á rabarbarasultu. Seyði af berjum er talið þvagdrífadi og styrkjandi og brúkast því við niðurgangi og blöðrusteini. Talsverð hjátrú loðir við reyninn og var trúa manna, að honum fylgdu níu náttúrur vondar og níu góðar. Viður er vel nýtanlegur í rennismíði en er illa naglheldur.” (Ág.H.)
Útbreiðsla
Víða um land, einkum í birkikjarri á Vestfjörðum, í útsveitum Miðnorðurlands og á Austfjörðum. Víða ræktaður og dreifist þaðan með fuglum. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Temp. Asía, L Asía, Evrópa og víða ílend í öðrum heimshlutum.