Sterklegur stöngullinn vex upp af sterkri rót, gjarnan jarðlægur að hluta en marggreindur og uppsveigður til enda, 5-10 sm á hæð. Blómstönglar oft margir, uppréttir eða uppsveigðir, blaðfáir, gishærðir, lágir í fyrstu en lengjast verulega eftir blómgun og geta þá orðið allt að 15 sm á hæð.
Lýsing
Stofnblöðin eru stilklöng og álíka á hæð og blómstönglar, þrífingruð og gishærð. Smábleðlar með fleyglaga grunni, yfirleitt þrígróftenntir í endann, stundum með fjórar til fimm tennur. Blómin ljósgul, fimmdeild, smá eða aðeins 5-7 mm í þvermál, í þéttum skúfum á stöngulendum. Krónublöðin styttri en bikarinn, mjó og tungulaga. Bikarblöðin lensulaga græn, ydd, með mjóum lensulaga utanbikarflipum á milli. Fræflar 5 en frævur oft 8-20. Smáaldin mógljáandi, trjónulaus. Blómgast í júní-júlí. 2n = 14.LÍK/LÍKAR: Engar. Blöðin minna aðeins á ljónslappa sem hefur þó fleiri en þrjú og mjórri smáblöð.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Fjallasmárinn er ásamt grámullu ein helsta einkennistegund snjódælda á Íslandi. Oftast vaxa þessar tegundir báðar saman, og aðeins þar sem snjór liggur samfellt á vetrum. Í snjóléttum landshlutum finnast þær niður í 350-400 m hæð, og upp í 800-1000 m. Í mjög snjóþungum héruðum eru þær oft mikið á láglendi, allt niður að sjávarmáli”. (H.Kr.)
Útbreiðsla
Algengur um land. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Grænland, Kanada, Alaska, Kína, Evrópa, N Ameríka, Pólhverf með stórum eyðum þó.