Saxifraga cotyledon

Ættkvísl
Saxifraga
Nafn
cotyledon
Íslenskt nafn
Klettafrú (Þúsundyggðajurt)
Ætt
Saxifragaceae (Steinbrjótsætt)
Samheiti
Saxifraga montavoniensis A. Kerner
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í sprungum, klettum og björgum.
Blómalitur
Hvítur - rauðar dröfnur
Blómgunartími
Júlí-ágúst
Hæð
0.10-0.40 m
Vaxtarlag
Sígræn, fjölær jurt, 10-40 sm á hæð. Stönglar uppréttir til skástæðir (jafnvel hangandi í klettum), marggreinóttir og fjölblöðóttir, kirtilhærðir og meira eða minna rauðleitir.
Lýsing
Grunnblöðin, þykk í þéttum, reglulegum hvirfingum við grunn, öfugegglaga eða tungulaga, um 10-15 mm á breidd, smátennt með hvítar kalkútfellingar í tönnunum. Stöngulblöðin kirtilhærð, spaðalaga eða aflöng en mjókka og minnka eftir því sem ofar dregur.Margir langir og þéttir, keilulaga blómklasar, oftast einn úr hverri blaðöxl. Blómklasar myndaðir úr fjölmörgum skúfum sem eru lengstir neðst á klasanum en styttri eftir því sem ofar dregur. Blómin hvít, oftast með gulleitum eða rauðleitum, gegnsæjum æðum, 1,2-1,8 sm í þvermál. Krónublöðin spaðalaga, randhærð neðan til. Bikarblöðin, með stuttum, rauðum kirtilhárum, 4-5 mm á lengd. Bikarblöðin meira en helmingi styttri en krónublöðin. Bikarflipar lensulaga, rauðleitir. Fræflar 10, frævan klofin í oddinn með tveim útstæðum stílum. Aldin hýði með mörgum fræjum. Blómgast í júlí-ágúst.“Skömmu eftir blómgun beygja fræflarnir sig hver af öðrum inn yfir óþroskaða frævuna og losa frjókorn úr hnöppum sínum yfir smáar flugur, sem sækja í sykrur blómsins, en rétta sig upp aftur að því loknu. Um það bil viku seinna er frævan fullvaxin og þegar frjóvgun er lokið beygja allir fræflarnir sig í einu inn yfir frævuna og vernda hana gegn frekari heimsóknum flugna.” (Ág.H.) LÍK/LÍKAR: Bergsteinbrjótur (Saxifraga paniculata) hefur svipaðar en minni blaðhvirfingar en miklu færri og smærri blómklasa.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Einkar fögur jurt, kölluð þúsunddyggðajurt í Skaftafellssýslu”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng eða víða á sunnanverðu Austurlandi frá Loðmundarfirði suður í Skaftártungu. Ófundin annars staðar. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Austurríki, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Noregur, Spánn, Svíþjóð, N Ameríka.