Salix lanata

Ættkvísl
Salix
Nafn
lanata
Íslenskt nafn
Loðvíðir
Ætt
Salicaceae (Víðiætt)
Samheiti
Salix chrysanthos VahlSalix glandulifera Flod.Salix lanata subsp. glandulifera (Flod.) Hiitonen
Lífsform
Runni
Kjörlendi
Vex í sendinni jörð í lyngmóum, runnlendi, hlíðum og á bökkum.
Blómgunartími
Maí
Hæð
0.50-1.20 (-1.8) m
Vaxtarlag
Jarðlægur runni, oftast með uppsveigðum, stuttum greinum, en uppréttur ef hann vex innan um stærri runna, 50-180 sm á hæð en nær þó ekki eðlilegri hæð þar sem beit er að staðaldri. Árssprotarnir gráloðnir, linir og safamiklir.
Lýsing
Blöðin oftast hvítloðin báðumegin. Axlablöðin gráloðin, oftast stór. Blöðin hvítloðin beggja vegna, oddbaugótt eða egglaga, fjaðurstrengjótt, 3-5 sm á lengd og 1,5-2,5 sm á breidd. Blómin einkynja í alllöngum reklum (2,5-8 sm). Reklarnir venjulega á greinaendunum, blómþéttir. Rekilhlífarnar langhærðar, gul- eða hvítloðnar. Karlreklar með langhærðum rekilhlífum og fræflum með fagurgulum frjóhnöppum. Kvenreklarnir þroskast seinna, rekilhlífarnar stuttar með löngum hvítum hárskúf, en frævan eða aldinið grænt eða gulgrænt, topplaga og hárlaust. Hýðin keilulaga, nokkuð flatvaxin. Blómgast í maí.LÍK/LÍKAR: Grávíðir. Blómlausar plöntur er best að þekkja á tiltölulega stórum axlablöðum sem eiga að vera auðsæ á fulllaufguðum greinum. Þau vantar oftast eða eru mjög smá á fjallavíði (grávíði). Hreinn loðvíðir er einnig með hárlausu aldin og hefur oftast loðnari, stærri og breiðari blöð en fjallavíðir (grávíðir).
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“ Loðvíðirinn er oft einkennisjurt fyrir sendnar víðiflesjur, einkum í hálendari sveitum móbergssvæðisins. Sums staðar, t.d. á Hólsfjöllum, var hann sleginn áður fyrr, myndaði meginuppistöðu í svonefndu laufheyi. Á sumum svæðum er loðvíðirinn í daglegu tali nefndur grávíðir, enda er hann ekki aðeins loðnari, heldur einnig grárri en aðrar tegundir víðis. Loðvíðir og grávíðir blandast oft og eru kynblendingarnir mjög breytilegir”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algengur um land allt. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Kanada, Færeyjar, Skandinavía, Stóra Bretland, N Ameríka, Rússland.