Vex í móum, hlíðum, giljadrögum og deigu gras- og mýrlendi, einkum til fjalla. Algengur um land allt.
Blómgunartími
Maí-júní
Hæð
0.15-0.60 m
Vaxtarlag
Lágvaxinn, jarðlægur runni með kræklóttum, brúnum eða rauðbrúnum, gljáandi greinum, 15-60 sm á hæð. Árssprotarnir oft beinvaxnir, uppréttir eða uppsveigðir, oftast hvíthærðir.
Lýsing
Blöðin oddbaugótt eða egglaga, stilkstutt, 2-4 sm á lengd og 1-1,5 sm á breidd, græn eða dálítið gulgræn á efra borði og blágræn á neðra borði, gráloðin, einkum á blaðröndunum og neðra borði. Blómin einkynja í 2-6 sm löngum reklum. Reklarnir hliðstæðir á greinunum. Karlreklarnir rauðleitir fyrst, en verða síðan ljósgulir með dökkleitum, langhærðum rekilhlífum. Fræflar tveir í hverju blómi með rauðum frjóknöppum. Frævur þéttgráloðnar. Frænið fjórklofið, frænin oftast hárauð meðan jurtin blómgast. Hýðin hvítloðin, leggstutt eða legglaus. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Loðvíðir. Blómlausar plöntur loðvíðis er best að þekkja á tiltölulega stórum axlablöðum sem eiga að vera auðsæ á fulllaufguðum greinum. Þau vantar oftast eða eru mjög smá á grávíði. Hreinn loðvíðir er einnig með hárlaus aldin og hefur oftast loðnari, stærri og breiðari blöð en grávíðir. Gekk áður undir nafninu grávíðir og var það nafn notað í sumum landshlutum yfir loðvíðinn og veldur það oft misskilningi þegar rætt er um þessar tvær tegundir. Ekki er það til að einfalda málið að löglega heitið er í dag fjallavíðir þó eflaust kalli hann margir grávíði enn um sinn.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Algengur um land allt, síst þó á láglendi sunnanlands.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Ástralía, Evrópa, Kanada, Kosta Ríka, Indland, Mexíkó, N Ameríka.