Polygonum aviculare

Ættkvísl
Polygonum
Nafn
aviculare
Ssp./var
ssp. boreale
Höfundur undirteg.
(Lange) Karlson
Íslenskt nafn
Blóðarfi
Ætt
Polygonaceae (Súruætt)
Lífsform
Einær-fjölær jurt
Kjörlendi
Vex við hús og bæi einkanlega í hlaðvörpum og athafnasvæðum, á haugstæðum og í nágrenni útihúsa. Finnst einnig hér og þar í fjörum.
Blómalitur
Grænhvítur-hvítur - stundum rauðleit
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0.10-0.35 m
Vaxtarlag
Einær jurt eða skammlífur fjölæringur. Stönglar skriðulir (skjóta rótum), smágáróttir, marggreindir, yfirleitt jarðlægir og uppsveigðir, en einstaka alveg uppréttir,10-35 (-50) sm á lengd.
Lýsing
Blöðin stakstæð, nær stilklaus, öfugegglaga eða sporbaugótt, heilrend, hárlaus, með himnukenndu, oft rauðleitu slíðri við blaðfótinn. Blöðin yfirleitt með blágrænum blæ, 1-3 sm á lengd og 4-12 mm á breidd.Blómin eru fá saman í blaðöxlum, grænhvít en stundum mjög rauðleit. Blómhlífin fimmdeild, einföld. Blómhlífarblöðin 3-4 mm á lengd, græn innan til með hvítum jaðri og oft rauð eða bleik í endann. Fræflar 6-8 og ein þrístrend fræva með þrem stílum. Blómgast í júní. Tvær deilitegundir eru þekktar héðan, subsp. boreale (Lange) Karlsson sem er algeng í byggð og subsp. neglectum (Besser) Arcang. sem hefur verið staðfest frá einum stað og er væntanlega innfluttur slæðingur (HKr).LÍK/LÍKAR: Engar.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Allmörg nöfn plöntunnar eru dregin af útliti hennar. Hnútagras af smáhnútum á stöngli, rauðarfi af blómalit og tunguarfi og oddvari af blaðlögun. Nöfnin hlaðarfi, veggjaarfi, veggjahrís, varpaarfi og varpalyng benda á vaxtarstaði. Viðurnafnið aviculare er dregið af lat. avis, fugl, en fuglar nærast mjög á fræjunum sbr. fuglaarfi, fuglabaunir. Seyði af urtinni var brúkað við niðurgangi, matarólyst og blóðlátum, eins og nafnið blóðarfi bendir til. Gömul er sú trú, að seyði af plöntunni stöðvi vöxt barna.” (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algengur á láglendi (í grennd við byggð) um land allt. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Meira og minna um allan heim.