Pedicularis flammea

Ættkvísl
Pedicularis
Nafn
flammea
Íslenskt nafn
Tröllastakkur (Lúsajurt)
Ætt
Scrophulariaceae (Grímublómaætt)
Lífsform
Fjölær hálfsníkill
Kjörlendi
Vex til fjalla og heiða í deiglendi, oft í mosaþembum, í rökum fjallshlíðum og mosaríku mýrlendi.
Blómalitur
Dökkfjólublár - gul neðri vör
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0.05-0.18 m
Vaxtarlag
Hálfsníkill, með gildar rætur, talið er að hann dragi næringu frá grasvíði og öðrum tegundum. Jurtin meira eða minna dumbrauðleit. Stönglar blöðóttir, gildir, uppréttir, lítt greindir, strendir eða gáróttir, nær hárlausir, 5-18 sm á hæð.
Lýsing
Fjaðurskipt, stilkuð blöð í stofnhvirfingu. Blöðin aflöng, oft meir eða minna fjólubláleit, smábleðlarnir tenntir. Blómin eru leggstutt, í löngum, þéttum, axleitum klasa á stöngulendum, hvert blóm 12-15 mm á lengd. Krónan einsamhverf, samblaða, pípulaga, bogin í endann með dökkfjólubláum, hliðflötum hjálmi sem beygir sig yfir blómið. Neðri vörin gul, þrískipt, með kringlóttum flipum. Bikarinn bjöllulaga, grænn með dökkfjólubláum línum eða blettum, fimmtenntur, klofinn stutt niður með tenntum flipum, 6-9 mm á lengd. Fræflar fjórir og ein fræva með einum rauðum stíl. Blómgast í júní-júlí. LÍK/LÍKAR: Engar.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Var oft áður nefndur lúsajurt. Víðast hvar, þar sem tegundir af ættkvíslinni Pedicularis vaxa, er lúsanafnið tengt við þær (pediculus merkir lús). Margir trúðu því, að húsdýr yrðu lúsug af því að éta hann. Til er sú skýring, að sé mikið um tröllastakk, sé landið svo lélegi, að dýrin þrífist illa og sé hættara við lús en ella. Líka er til, að seyði af plöntunni sé notað gegn lús á húsdýrum og sannanlega inniheldur plantan eitur, sem drepur óþrifnað.” (Ág. H.)
Útbreiðsla
Víða til fjalla á Norður- og Austurlandi, sjaldgæfari í útsveitum. Mikið á hálendinu og nær þar suður fyrir jökla. Sjaldgæfari á Vesturlandi og ófundinn á Suðurlandi. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Norðurhvel (N Ameríka, Grænland, Kanada, Evrópa, Asía)