Vex á melum og í klettum, sendnum jarðvegi, í klettum og rindum.
Blómalitur
Brennisteinsgulur
Blómgunartími
Júní/júlí-ág.
Hæð
0.08-0.20 m
Vaxtarlag
Upp af gildri stólparót rísa beinir eða aðeins sveigðir stönglar, 1 eða fleiri saman, blómstilkar blaðlausir og brúnhærðir, 8-20 sm á hæð. Jurtin öll meira eða minna stinnhærð.
Lýsing
Blöðin í stofnhvirfingum, grófhærð, stilkuð, fjaðurskipt með meira eða minna flipóttum blaðhlutum. Eitt endastætt stórt blóm á stöngulenda. Blómin brennisteinsgul 2,5-3,0 sm í þvermál. Einnig finnast afbrigði með hvít eða bleik blóm t.d. á Vestfjörðum. Krónublöðin fjögur, mun lengri en bikarblöðin, öfugegglaga. Bikarblöðin tvö, sporbaugótt og dökkloðin, falla af um leið og plantan blómgast. Fræflar margir og ein stór (8-12 mm) stíllaus fræva, alsett svörtum, stinnum hárum, með kross- eða stjörnulaga, fjögurra til fimm arma fræni ofan á flötum toppnum. Aldinið er móhært sáldhýði með götum í röð undir þakinu, fræin örsmá og fjölmörg í hverju hýði. Blómgast í júní-ágúst.LÍK/LÍKAR: Garðasól. Garðasól auðþekkt á hárlausum blöðum, margskiptu fræni og á mun stærri blómum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Hún var talin góð við svefnleysi (svefngras), stríðum verkjum og sinateygjum. Af smáskornum blómum má búa til dropa, séu þau látin standa í sterku hvítvíni við yl í viku. Melasól með hvítum og bleikum blómum". (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng á Vestfjörðum og Austfjörðum, einnig allvíða á vestanverðu landinu suður að Skarðsheiði og austur á Skaga. Hátt til fjalla í innsveitum Eyjafjarðar og Skagafjarðar allt suður í Ásbjarnarfell. Sjaldgæf annars staðar. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Temp. Asía, N Ameríka, Evrópa, Grænland