Vex í tjörnum, keldum, flóum, mýrum, síkjum og tjarnarvikum og í blautu votlendi um land allt. Nokkuð algeng um land allt.
Blómalitur
Hvítur með bleiku ívafi
Blómgunartími
Júní-júlíí
Hæð
0.20-0.30 m
Vaxtarlag
Jarðstönglar gildir, liðaðir og yfirleitt langir og liðaðir, fljóta á vatni í grunnum tjörnum og skurðum eða liggja lausir ofan á mosa í mýrum og flóum, 20-30 (-50) sm á hæð/lengd eða meir ef jurtin vex í vatni.
Lýsing
Blöðin stakstæð, allþykk, þrífingruð, á 10-30 sm löngum stilk, smáblöðin 4-10 sm á lengd og 2-6 sm á breidd, hárlaus, öfugegglaga eða breiðoddbaugótt og heilrend. Blómin 2-3 sm í þvermál, bleik utan en hvítleit innan, í stjörnulaga, uppréttum gisnum klasa, löng, áberandi hvítleit kögurhár á krónblöðum. Blómin fá saman á skástæðum, blaðlausum blómstöngli. Blómhnapparnir rauðleitir fyrir blómgun. Krónan hvít, klofin niður til miðs eða meir í 5 flipa. Bikarinn djúpklofinn, fliparnir snubbóttir, rauðgrænir að lit. Fræflar fimm með dökkar frjóhirslur. Ein fræva með einum stíl og þrískiptu fræni. Aldin hýði eða hnot. Blómgast í júní. Blómgast helst í vatni en síður á þurrari stöðum.LÍK/LÍKAR: Engar.
“Auðþekkt planta og alkunn lækningajurt. Ber mörg nöfn, ýmist dregin af blöðum (remmublöð, mýrarhófur, þríblað), jarðstöngli (álftakólfur, mýrarkólfur, keldulaukur og nautatág) eða notum, en hún var brúkuð í reiðinga og kallast reiðingsgras, og til lækninga, svo sem nöfnin kveisugras og ólúagras bera vott um. Hún þykir einkar góð við skyrbjúgi, gulu, miltis-og lifrarveiki, vatnssótt, gikt og flestum meinum í lífinu. Bæði búið til seyði og te at rótum og blöðum. Þótti góð til hárþvotta og með njóla er te af henni gott við harðlífi.” (Ág.H.)"Takist áður en blómstrar. Hún er magastyrkjandi, svita og þvagleiðandi, vessa þynnandi, uppleysandi, ormdrepandi og ver rotnun. Hún brúkast því mót skyrbjúg, gulu, miltis og lifrarveiki, vatnsótt og iktsýki; flestum meinum í lífinu. Blöð hennar brúkast í te; af því drekki maður lítinn kaffibolla í senn þrisvar daglega. Af seyðinu takist hálfu minna, eins oft á dag, það drepur orma í mönnum og styrkir þreyttan líkama, þynnir og hreinsar gallið, er gott móti vatnsótt, liðagigt, fótaveiki, limafallssýki, kvefi, kveisu og salgflóði; líka er þeim það þjenandi, sem hafa kalin sár. Seyði af jöfnum hlutum horblöðkurótar og heimulu er hið besta magastyrkjandi meðal, og gott við harðlífi, gulu, miltis og lifrarbólgu og öðrum meinlætum, af því drekkist hálfur tebolli í senn 4 sinnum daglega". (GJ)
Útbreiðsla
Algeng í votlendi um allt land. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, N Ameríka, Kanada, Chad, Kína, Grænland, Indland, Bali, Japan, Nýja Sjáland ov.