Gróbæru stönglarnir myndast snemma, nokkurn veginn samtímis þeim grólausu, móleitir og greinalausir fyrst, en grænka eftir gróþroska og greinast einkum ofan til. Gróöx um 1-2 sm á lengd og gróbærir stönglar um 8-10 sm á hæð og 4 mm í þvermál, ljósmóbrúnir. Gróstönglaslíðrin trektlaga, blá- eða grágræn.Grólausu stönglarnir 2-3 mm í þvermál, grágrænir, sívalir, liðskiptir, gáraðir og fínnöbbóttir, með liðskiptum, þrístrendum, kransstæðum greinum, 15-25 sm á hæð. Tennt slíður við hvern lið, slíðurtennur 10-16, með breiðum, hvítum himnufaldi, svartar í miðju. Slíðrið grænt undir tönnunum. Greinarnar einnig 10-16 í kransi, láréttar eða lítið eitt niðursveigðar, skarpþrístrendar, ógreindar, oftast þrjár slíðurtennur á greinunum. Neðsti liður greinanna styttri en stöngulslíðrið, sé skoðað um miðjan stöngulinn eða neðar. LÍK/LÍKAR: Klóelfting. Klóelftingin er með grófari og meira uppvísandi greinar en vallelftingin. Lengdarhlutfall neðsta greinliðar og stöngulslíðurs er einnig gott til aðgreiningar sé það skoðað á miðjum stöngli.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Líklegt er að tegundinni sé oft ruglað saman við klóelftingu, enda var verkun þeirra talin lík”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng um allt land nema á miðhálendinu og hátt til fjalla. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Arktísk, temp. beltið; Evrópa, N Ameríka, M & N Asía