Gróbæru stönglarnir birtast snemma vors, 5-15 á hæð, alllöngu á undan þeim grólausu, ljósmóleitir, blaðgrænulausir og hálfgagnsæir með svörtum grófum slíðrum, falla eftir gróþroskunina. Axið rauðbrúnt.Grólausir stönglar koma upp síðar og eru hærri, greindim, grasgrænir, 5-50 sm á hæð. Tennt slíður við hvern lið. Slíðurtennur á stönglum 10-12, mósvartar og loða oft saman 2 og 2. Greinarnar jafnmargar í kransi, hvassþrístrendar með þrem grænum tönnum við hvern lið, ógreindar, neðstu greinar lengstar en greinar styttast og kransar minnka eftir því sem ofar dregur. Neðsti greinarliðurinn er jafnlangur eða lengri en slíðrið, sem greinin vex út frá.Mjög breytileg tegund, fundist hafa afbrigði með alveg jarðlægum stönglum og greinum. Tvær deilitegundir finnast hér, E. a. subsp. arvense er algeng á láglendi og í byggð, en E. a. subsp. boreale (Bong.) Á.Löve vex jafnt hátt til fjalla sem einnig á láglendi.LÍK/LÍKAR: Skógelfting & vallelfting. Klóelftingin hefur grófari greinar en vallelftingin og meira uppvísandi. Lengdarhlutfall neðsta greinliðar og stöngulslíðurs er einnig gott til aðgreiningar, ef skoðað er á miðjum stöngli. Frá mýrelftingu þekkist klóelftingin best á miklu fleiri og þrístrendum greinum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
?Þetta er ein af þeim tegundum, sem hefur mörg nöfn, enda er hún mjög áberandi og algeng, einkum við hús og bæi. Gróbæri stöngullinn kallast góubitill (-beitill) eða gómbitill, tröllafingur og skollafótur. Er hann vel ætur, annað hvort steiktur í smjöri eða hafður í mjólkurgraut. Hnýðin á neðanjarðarrenglunum (sætutágar) eru sæt á bragðið. Af nöfnum á grólausa stönglinum má nefna: Sauðagras, mánaðargras, kveisugras, draumagras og liðagras. Seyði af urtinni þótti gott við þvagteppu, niðurgangi, blóðlátum og tregum hægðum?. (Ág. H.)
Útbreiðsla
Mjög algeng um allt land, bæði á láglendi og allhátt til fjalla.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N Ameríka, Rússland, Evrópa