Vex sem slæðingur í skurðum, á ruðningum, ruslahaugum eða í graslendi.
Blómalitur
Rauðfjólublár
Blómgunartími
Júlí
Hæð
0.3-0.8 m
Vaxtarlag
Jurt, 30-80 sm. Stönglar gáróttir, stutthærðir. Slæðingur.
Lýsing
Blöðin stilklaus, reglulega fíntennt, mjóegglaga eða oddbaugótt, 3-7 sm á lengd og 1-2,5 sm á breidd, gagnstæð neðan til á stönglinum en oft stakstæð ofar. Blómin rauðfjólublá. Krónan 8-12 mm á lengd. Bikarblöð 3-4 mm á lengd, dökkrauð. Fræflar 8. Eitt kylfulaga, óklofið fræni, frævan neðan undir blómhlífinni, 2-6 sm á lengd og klofnar við fræþroska í fjórar ræmur. Fræin með löngum, hvítum svifhárum. Blómgast í júlí. LÍK/LÍKAR: Runnadúnurt. Runnadúnurt (Epilobium montanum) er sjaldgæfur slæðingur sem líkist vætudúnurt en þekkist á stuttstilkuðum, djúptenntum blöðum og fjórklofnu fræni.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Allvíða. Barst til landsins um 1955 og er nokkuð útbreidd á Suðvesturlandi og um Eyjafjörðinn og er orðin ílend á þeim stöðum. Fremur sjaldgæf annars staðar enn sem komið er. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N og S Ameríka, Evrópa, Ástralía og viðar.