Vex í þurrum móum og á melum og melkollum um land allt.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Maí-júní
Hæð
0.04-0.15 m
Vaxtarlag
Myndar flatar þúfur með jarðlægum, trjákenndum stönglum, 4-15 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin (rjúpnalaufin) eru sígræn, skinnkennd, egglaga, sepótt, stilkstutt, tennt, 1,2-2,2 sm á lengd, sígræn, dökkgræn, gljáandi og gishærð á efra borði en þétt hvítloðin á neðra borði með niðurorpnum blaðjöðrum. Blómin standa á mjúkhærðum leggjum og eru krónublöðin oftast átta. Blómstönglarnir eru 3-15 sm á lengd, blómin fremur stór eða 2,5-3,5 sm í þvermál. Krónublöðin hvít en fræflar gulir og mynda þétta þyrpingu í miðju blómsins. Frævurnar margar. Stíllinn verður síðan að löngum, fjaðurhærðum svifhala upp úr aldininu. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Engar. Jurtin gengur undir mismunandi nöfnum eftir þroskastigi. Nafnið holtasóley á við um blómgunartímann, en þegar aldinið hefur þroskast er hún kölluð hárbrúða. Blöðin nefnast rjúpnalauf vegna þess að þau eru ein aðalfæða rjúpunnar.ÞJÓÐARBLÓMIÐ: Árið 2004 kusu Íslendingar Holtasóley sem sitt þjóðarblóm. Landbúnaðarráðuneytið hafði frumkvæði að því að kjósa um þjóðarblóm Íslendinga en Landvernd var falið að sjá um framkvæmdina. Kröfurnar voru þær að blómið þurfi að vera vel sýnilegt víða um land og einkennandi fyrir gróðurfar þess. Það þurfi að hafa tiltölulega langan blómgunartíma, vera auðvelt að teikna og vel fallið til kynningarstarfs.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
Te af blöðum, ásamt blóðbergi og vallhumli var talið styrkja brjóst og maga og þykir besti drykkur. Blöðin eru mikilvæg fæða rjúpunnar og kallast rjúpnalauf (-lyng). Þau voru áður þurrkuð og mulin til þess að drýgja reyktóbak. Nöfnin hárbrúða og hármey eru dregin af löngum hárum aldina. Sú var trúa manna fyrrum, að rótin drægi til sín peninga, væri hún notuð á réttan hátt, og var hún því kölluð þjófarót. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng um land allt.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Norðurhvel að mestu (arktísk); Evrópa, N Ameríka, Grænland, Alaska, Kanada og víðar.