Drosera rotundifolia

Ættkvísl
Drosera
Nafn
rotundifolia
Íslenskt nafn
Sóldögg
Ætt
Droseraceae (Sóldaggarætt)
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í mosavöxnum mýraþúfum og í votlendi með brekkum.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Júlí
Hæð
0.02-0.08 m
Vaxtarlag
Upp úr stofnhvirfingu sérkennilegra blaða vaxa uppréttir, örmjóir blómskipunarleggir, 2-8 sm á hæð
Lýsing
Blöðin útbreidd, kringlótt, fremur stilklöng, mörg saman í stofnhvirfingum, móbleik eða rauð, 3-4 mm í þvermál, þakin fagurrauðum, 2-3 mm löngum kirtilhárum, einkum á efra borði og á blaðjöðrum.Blómklasar einhliða með leggstuttum blómum sem opnast bara í sólskini. Blómin nokkur saman eða stök á stöngulendanum, oftast lokuð nema í sólskini. Krónublöðin eru 3-4 mm á lengd. Bikarinn klofinn að miðju eða svo, dökkleitur, bikarfliparnir snubbóttir og oft rauðleitir í endann. Krónublöð, fræflar og fræni hvítleit. Blómstönglar án blaða og mjög rauðmengaðir. Blómgast í júlí. LÍK/LÍKAR: Auðþekkt frá öllum öðrum jurtum á hinum sérkennilegu blöðum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Kirtilhár blaða eru næm fyrir hvers kyns áreiti. Snerti lítill hlutur blaðið, festist hann í slími kirtilhára, sem mynda glæran dropa yst á hverjum hároddi. Nærliggjandi kirtilhár beygja sig einnig að hlutnum, þótt þau hafi ekki orðið fyrir áreiti. Festist dýr í slíminu verður myndun þess örari og hreyfingar háranna miklu hraðari en ella. Slímið lokar öndunarvegi dýranna, svo að þau kafna og smám saman leysast þau upp í því. Á þennan hátt tekur sóldöggin upp niturrík næringarefni, sem hún getur ekki fengið að öðrum kosti, því að rótakerfið er lítið.”“Slímdropar sóldaggar voru settir í brennivín og seldir undir nafninu aqua vitae roris solis. Slímdroparnir voru taldir hafa undraverða verkun og óþarft að leita læknis væri þeirra neytt. Þeir voru einnig notaðir til þess að eyða vörtum, líkþornum og freknum”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Fremur sjaldgæf. Hér og hvar í útsveitum á Vesturlandi og á Vestfjörðum, einnig í útsveitum beggja vegna Eyjafjarðar. Sjaldgæf á Austurlandi, ófundin annars staðar. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Norðurhvel (arktísk); Evrópa, N Asía, N Ameríka.