Aira cespitosa L.; D. cespitosa var. glauca (Hartm.) Sam., D. glauca Hartm. (ssp. glauca)
Lífsform
Fjölær grastegund
Kjörlendi
Vex í graslendi, móum og túnum.
Blómalitur
Puntur fjólubláleitur
Blómgunartími
Júní-júl
Hæð
0.40 - 1.20 m
Vaxtarlag
Myndar stórar og þéttar þúfur með beinum, uppréttum, allgrófgerðum og gljáandi stráum og fáum, snörpum og fremur stuttum blöðum, 40-120 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin með upphleyptum strengjum á efta borði og virðast hvítöndótt þegar horft er í gegn um þau, 2-4 mm á breidd, mjög snörp og skarprifjuð. Punturinn 15-20 sm á lengd, keilulaga með nálega beinum og snörpum greinum, sem eru útréttar um blómgunartímann. Smáöxin tvíblóma, fjólubláleit eða dökkbrún. Axagnirnar eru styttri en smáaxið, sem er bláleitt neðan til, en hvítt og gulgljáandi í oddinn. Neðri axögnin eintauga, 3 mm, sú efri þrítauga, 3,5 mm. Löng hár umhverfis blómagnirnar. Neðri blómögnin með bakstæðri beinni týtu við fótinn. Slíðurhimnur efstu blaðanna 5-6 mm langar. Blómgast í júní-júlí. LÍK/LÍKAR: Hálíngresi. Snarrótarpunturinn auðþekktur á hvítröndóttum, skarprifjuðum blöðum (gegnt ljósi) og grófgerðari punti.
“Snarrótin er oft ríkjandi á ræktuðu landi bæði vegna þess, að búsmali sneyðir hjá henni og hún vex þúfum, sem stækka með hverju ári. Hún er þó talin sæmilegt fóðurgras a. m. k. áður en stráin tréna. Sums staðar var talið sjálfsagt að byrja slátt, þegar tvö hné voru komin á puntinn, en hinar hörðu þúfur þóttu verstu slægjur. Hins vegar er snarrótin harðgerðasta grastegundin og kemur oftar ókalin undan snjó en aðrar tegundir. Hinar stóru þúfur, óþýð blöð sem auðvelt er að skera sig á og silfurgrár puntur eru svo einkennandi að tegundinni verður trauðla ruglað saman við aðrar. Í eldri ritum er hún nefnd engja-punthali og er uppruni óviss. Nöfnin snarrót og puntur eru gömul alþýðuheiti. Í Norðurlandamálum eru til nöfnin punt, bunt og funt á þessari tegund. Ætlað er að þau séu af sömu rót og orðin bunke, bynke og buna sem merkja m. a. hrúga, þúfa, fótur og holir, grófir leggir. Ósennilegt er, að puntur sé komið af punt í merkingunni skraut, enda þótt puntgrös séu oft notuð til skreytinga. Snarrótarpunt má hafa til litunar sé hann tekinn fullþroskaður og áður en hann missir lit. Fást þá ýmsir grænir litir”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng um land allt, bæði á láglendi og til fjalla.Önnur náttúruleg heimkynni: Asía, Evrópa, N Ameríka og ílend hér og hvar.