Vex við bæi og í úthögum, í graslendi og í túnum. Víða á sunnanverðu landinu og nokkuð víða annars staðar á landinu og þá helst við bæi.
Hæð
0.20-0.60 m
Vaxtarlag
Tvíær-skammær jurt, 20-60 sm á hæð. Stönglar sívalir, fínrákóttir og greindir ofan til.
Lýsing
Blöðin flest stofnstæð, ljósgræn og tví-, til þrífjöðruð. Smáblöðin mjólensulaga eða striklaga, oddmjó. Tvö flipótt smáblöð við hvert stöngulliðamót.Blómin hvít eða ofurlítið bleikmóleit, fimmdeild, mörg saman í samsettum sveipum sem eru 3-5 sm í þvermál. Hvert blóm 2-3 mm í þvermál. Krónublöðin með rifi eftir miðju efra borði og innbeygðri totu í endann, jöfn að stærð. Fræflar fimm og frævan tvískipt með tveimur stílum. Aldinið klofnar í tvö íbjúg, rifjuð, móbrún deilialdin sem eru 3-4 mm á lengd. Deilialdin kúmens eru bragðsterk og oft notuð sem krydd í brauð og osta. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Engar.
Heimildir
1,2,3, HKr, 9
Reynsla
“Aldinið, sem oft er ranglega nefnt fræ, er talið vindeyðandi, þvagaukandi, auka mjólk í brjóstum, styrkja magann og eyða lifrarbólgu og gulu. Kúmen er ræktað víða um heim, einkum vegna olíunnar í fræjunum, sem er notuð við ilmvatnsgerð og vínframleiðslu. Það er einnig haft í osta og brauð. Gísli Magnússon (Vísi-Gísli) flutti plöntuna til landsins um 1660 þegar hann bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð.” (Ág. H.)
Útbreiðsla
Algengt á Suður og Suðvesturlandi, annars allvíða í byggðum landsins.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N Ameríka, Evrópa og á stöku stað í Asíu.