Angelica archangelica

Ættkvísl
Angelica
Nafn
archangelica
Íslenskt nafn
Ætihvönn
Ætt
Apiaceae (Sveipjurtaætt)
Samheiti
Archangelica officinalis Hoffm.
Lífsform
fjölær
Kjörlendi
Vex í hvömmum, í lautum, við ár og læki tíl fjalla, í áhólmum, meðfram lindalækjum, í sjávarhömrum og einnig víða í klettum og giljum.
Blómalitur
Hvítur-grænhvítur
Blómgunartími
Júlí-ág.
Hæð
0.5-1.8 m
Vaxtarlag
Stórgerð jurt sem getur orðið 50-180 sm á hæð. Stönglar gáróttir, uppréttir, stinnir og sterkir, greinast ofan til og eru með víðu miðholi.
Lýsing
Blöðin margsamsett, tví- til þrífjöðruð, mjög stór, þríhyrnd að ummáli og endasmáblaðið er þrískipt. Smáblöðin hárlaus, gróftennt. Blaðslíður breið, útblásin og lykja um allan sveipinn í byrjun þroska. Reifablöð smáreifanna striklaga, stórreifar engar eða falla snemma.Blómin fimmdeild, hvítleit, hvert 5-6 mm í þvermál, standa mörg saman í kúptum, samsettum sveipum sem geta orðið 10-20 sm í þvermál, gerðir af mörgum smásveipum sem hver um sig er 1,5-3 sm í þvermál. Krónublöðin grænhvít, tungulaga eða oddbaugótt. Fræflar 5 í hverju blómi. Ein fræva með tveim stílum. Aldin tvíkleyft klofaldin, hvort með fjórum rifjum öðrum megin. Blómgast í júlí-ágúst. LÍK/LÍKAR: Geithvönn. Ætihvönnin auðþekkt á kúptari blómsveipum og hún er einnig með stærri og grófari blöð.
Heimildir
1,2,3,9
Reynsla
“Plantan hefur löngum verið kennd til engla, englajurt og englarót, því að þeim voru þökkuð hin góðu not sem hafa má af henni. Hvönnin var ræktuð í Noregi og sennilega hér einnig. Hvannagarðar eru elstu garðar, sem vitað er um á Norðurlöndum, og hvannir voru seldar á mörkuðum um árið 1000. Stönglar (hvannstrokkarnir, njólarnir) voru afhýddir og etnir hráir eða soðnir í mjólk. Rótin var notuð til lækninga og menn tuggðu hana þurrkaða, þegar mannskæðir faraldrar gengu. Þótti hún hin besta vörn. Er talin styrkjandi, vindeyðandi, svita-og tíðaaukandi, ormdrepandi og uppleysandi. Hún var ráð við hósta, skyrbjúgi, lystarleysi, fótaveiki og kveisuverkjum. Notuð sem krydd í brennivín.” (Ág. H. Bj.)
Útbreiðsla
Nokkuð algeng og finnst víða um land allt.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Norðurhvel (víða í Evrópu), Kína, N Ameríka