Achillea millefolium

Ættkvísl
Achillea
Nafn
millefolium
Íslenskt nafn
Vallhumall
Ætt
Asteraceae (Körfublómaætt)
Samheiti
Achillea sylvatica Becker Achillea millefolium var. firma
Lífsform
Fjölær
Kjörlendi
Vex í þurrum brekkum og valllendi, jafnt ræktuðu sem óræktuðu og oft í sandi. Algeng um allt land en í mismiklum mæli. Einnig víða við vegi, á engjum, högum, garsflötum en síst í mjög mögrum jarðvegi.
Blómalitur
Geislablóm hvít, hvirfilblómin í miðju blómsins eru hvít-grágul
Blómgunartími
Júní/júlí-ágúst/sept.
Hæð
0.10 - 0.50 m
Vaxtarlag
Skriðulir jarðstönglar með neðanjarðarrenglum. Upp af þeim vaxa 1-4, loðnir ofanjarðarstönglar, uppréttir eða skástæðir, yfirleitt greindir ofan til, 10-30 sm á hæð. Verður allt að 50 sm á hæð á bestu stöðum.
Lýsing
Blöðin stakstæð, dökkgræn, fíngerð, tvífjaðurskipt með mjóa og ydda flipa meira og minna fínhærð 7-15 mm á breidd og 3-8 sm á lengd. Tegundanafnið millefolium vísar til blaða og þýðir "þúsundblöðóttur" eða hin þúsundblöðótta tegund. Smáblöðin djúpskert, flipar broddyddir og lensulaga eða nær striklaga. Körfurnar smáar, margar saman í þéttum, flötum hálfsveipum á stöngulendum. Hvert blóm 4-5 mm í þvermál. Geislablómin eða tungukróna jaðarblómanna hjartalaga, hvít. Athyglivert er, að geislablómin eru fá, oft aðeins fimm. Hvirfilblómin í miðju blómsins eru hvít-grágul og pípukrýnd. Reifablöðin langhærð, græn, með dökkbrúnum himnufaldi. Aldinið sviflaust. Fræið fræhvítulaust. Skordýrafrævun. Blómgast í júní. Bleik tilbrigði og jafnvel aðeins rauð eru þekkt í náttúrunni en mun sjaldséðari.LÍK/LÍKAR: Silfurhnappur. Auðgreindar hvor frá annari á blöðunum en blómin eru áþekk.
Heimildir
1,2,3,9, http://www.efloras.org/florataxon.aspx?flora_id=1&taxon_id=200023010;
Reynsla
Vallhumallinn þykir ein besta lækningajurtin og er sagður styrkjandi, mýkjandi, samandragandi, uppleysandi, blóðhreinsandi, bæta sinateygjur og stirðleika. Rótardufti er gott að strá í illa lyktandi sár og á stundum var það lagt í holur í tönnum. Hann er jöfnum höndum notaður í te, seyði og smyrsl. Við tegerð eru aðrar plöntur oft hafðar með t. d. ljónslöpp og blóðbergi. Seyðið linaði kvef og gikt, og trúa manna var, að það eyddi hrukkum. Var því notað til andlitsþvotta og oft voru ljót sár þvegin úr því. Smyrsl úr blöðum mýkir og var notað sem handáburður en er einnig mjög græðandi t. d. við útbrotum, bólgum, fleiðrum og sárum. Nafnið melli- eða mellufólía er alþýðuheiti. (Ág. H. Bj.)
Útbreiðsla
Mjög algeng, vex meira og minna um allt Ísland en í mismiklum mæli. Algengur á landræna svæðinu norðaustan til á landinu, en annars staðar einkum í byggð.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, A og V Asía, N Ameríka, Grænland