Carex incurva Lightfoot; C. maritima var. setina (H. Christ ex Scheutz) Fernald; C. maritima subsp. yukonensis A. E. Porsild
Lífsform
Fjölær grasleitur einkímblöðungur
Kjörlendi
Vex í sendinni jörð og raklendi, á rökum árbökkum, eyrum, deigum söndum við sjó og inni á öræfum þar sem hentug skilyrði eru fyrir hendi. Víða um land allt.
Blómgunartími
Júní
Hæð
0.05 - 0.20 (-0.25) m
Vaxtarlag
Langskriðull, marggreindur jarðstöngull, myndar mjög langar, greindar og skriðular renglur, einkum þegar hún vex í sandi. Stráin grágræn, nær sívöl, oftast kengbogin, slétt, og sitja oft í löngum röðum á jarðstönglinum, 8-20 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin grágræn eða blágræn, snarprend oftast með uppundnum röðum, meira eða minna uppvafin neðan til en þrístrend í endann, frekar mjó, eða aðeins 1-1,5 mm á breidd. Samaxið hnöttótt eða egglaga, frekar stórt í samanburði við jurtina sjálfa. Nokkur þéttstæð öx saman í keilulaga hnapp (1,5x1 sm), líkt og eitt ax væri, karlblómin efst í hverju axi en kvenblómin neðar. Axhlífarnar stuttar og móleitar með ljósara faldi og skarpri miðtaug talsvert styttri en hulstrin sem eru gljáandi og græn neðan til en oft brún ofan til og með stuttri og snarpri trjónu.Tvö fræni. Blómgast í júní. LÍK/LÍKAR: Engar.
Algeng með ströndum landsins og meðfram stórfljótum, einnig víða á sandeyðimörkum miðhálendisins.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Grænland, Alaska, S Ameríka, Evrópa, Asía.