Málsháttur
Lengi býr að fyrstu gerð.
22.8.2007 - Grasagarđurinn 50 ára - ágúst 2007
Upphafið 1909-1912

Lystigarðsfélagið var stofnað 1909 og stuðlaði það félag meðal annars að sköpun og ræktun Lystigarðsins sem opnaður var formlega árið 1912. Í lögunum félagsins var gert ráð fyrir fimm manna stjórn er skipti sjálf með sér störfum. Fyrsta stjórnin var kjörin og skipuð eingöngu konum. Frú Sigríður Sæmundsson formaður, frú Alma Thorarensen gjaldkeri og frú Anna Stephensen ritari. Í framkvæmdanefnd voru kosnar þær frú María Guðmundsson og frú Anna Catharine Schiöth. Sáu konurnar um fjáröflun til rekstrar garðsins og varðandi skipulagið kom að góðum notum sú reynsla og þekking sem frú Anna Schiöth hafði kynnst í heimalandi sínu Danmörku. Talið er að Anna hafi séð um teikningu upprunalega hluta Lystigarðsins og fyrirkomulag og var raunar lífið og sálin í öllum framkvæmdum innan félagsins hin fyrstu ár.
Sú kona sem þó vann hvað lengst við garðinn var þó tengdadóttir Önnu, frú Margrethe Schiöth. Alls starfaði hún að vexti og viðgangi garðsins í rúmlega þrjátíu ár. Á þessu tímabili naut hún aðstoðar allmargra manna og kvenna um lengri eða skemmri tíma. Þegar Margrethe sagði starfinu við garðinn lausu var hún orðin háöldruð kona eða áttatíu og þriggja ára. Á áttræðisafmæli frú Schiöth gerði Akureyrarbær hana að heiðursborgara kaupstaðarins í viðurkenningarskyni fyrir sjálfboðaliðsstörf hennar í þágu Lystigarðsins. Þá var henni einnig reistur minnisvarði í garðinum sem á stendur. "Margrethe Schiöth - Hún gerði garðinn frægan"

1957 Stofnun Grasagarðsins - tímabil Jóns Rögnvaldssonar.

Eftir að frú Schiöth lét af stjórn garðsins haustið 1953 var leitað til Jóns Rögnvaldssonar garðyrkjumanns um að veita honum forsjá. Ástæður voru aðallega tvær. Jón var fremstur kunnáttumanna á þessu sviði og einnig hafði hann oft aðstoðað frú Margrethe í garðinum og var því manna líklegastur til að halda starfinu áfram í sama anda og hún.

Að frumkvæði Sigurðar Pálssonar, kom stjórn Fegrunarfélags Akureyrar á fund 30. mars 1957 til þess að ræða möguleika á því að koma upp Grasgarði á Akureyri og taldi að enginn vafi léki á því að það yrði mikill menningarauki fyrir Akureyri. Í framhaldi af þessu leitaði félagið síðan til Bæjarstjórnar Akureyrar og fór fram á það að bærinn legði fram fé til kaupa á grasasafni Jóns Rögnvaldssonar sem hann hafði þá komið sér upp í Fífilgerði austan Eyjafjarðar. Markmið félagsins var að tryggja það að þetta merkilega og sérstæða safn flyttist ekki úr héraðinu, eins leit út fyrir um skeið.

Varð það síðan úr að Fegrunarfélagið hafði forgöngu um kaupin og vann síðan að flutningi plantna um vorið og sumarið, mest í hjáverkum eins og sagt var. Safninu var komið fyrir í Lystigarðinum. Í safninu voru þá alls 636 tegundir erlendra plantna, eða 463 tegundir fjölærra blómplantna og 173 tegundir trjáplantna og runna.

Með þessu má segja að Grasagarðurinn hafi verið formlega stofnaður og hefur garðurinn síðan verið rekinn sem almennings- og grasagarður og þjónað báðum hlutverkum af kostgæfni.

Þess má og geta að Jón var líka brautryðjandi í ræktun íslenskra jurta og kom sér upp sambandi við erlenda grasagarða víða um lönd. Einnig var hann duglegur að fara í söfnunarferðir og má nefna að hann fór m.a. til Noregs, Sviss, Grænlands, Kanada og víðar.

Jón Rögnvaldsson lét af störfum við Lystigarðinn árið 1970. Hafði þá grasagarðurinn að geyma nær allar tegundir íslensku flórunnar og talið var að fjöldi erlendra tegunda í Lystigarðinum væri þá um tvö þúsund.

Í virðingarskyni við söfnunarstörf Jóns veitti forseti Íslands honum fálkaorðuna 17. júní 1963.

Síðari tímar.

Síðan þá hefur hlutverk grasagarðsins aukist ár frá ári og mikilvægi hans hefur sennilega aldrei verið meira en nú. Nú eru tæplega 7000 erlendar tegundir í garðinum og meginþorri íslensku flórunnar. Þess má geta að Lystigarðurinn hafði frumkvæði að því árið 2003 að safna öllum sjaldgæfum og friðuðum íslenskum tegundum sem ekki voru í ræktun þá þegar í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Grasagarð Reykjavíkur.

Garðurinn er vel kynntur erlendis og mun betur en flestir gera sér grein fyrir. Blaðamenn og konur sem sérhæfa sig í skrifum um sérstæða og fallega garða hafa komið hér árlega og oft fleiri en einn á ári hverju síðustu árin. Greinar birtast víða, t.d. á norðurlöndunum, í Ameríku, í Bretlandi og víðar. Þetta er ákveðin landkynning fyrir allt svæðið og stuðlar að aukinni ferðaþjónustu á svæðinu. Lystigarðurinn er vel sóttur og heimsækja hann ávallt fleiri ár frá ári. Rúmlega 100.000 manns koma í garðinn á hverju sumri og fleiri og fleiri koma að vetri, vori og hausti.

Á afmælisárinu hefur m.a. verið unnið að því að koma upp nýju svæði með háfjallaplöntum í veglegri steinhæð sem skipt er upp eftir heimsálfum. Þar verða til sýnis plöntur sem eiga uppruna sinn í hæstu fjöllum Evrópu, Asíu, N & S Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálands. Við þetta skapast skilyrði til ræktunar fjölmargra tegunda sem ekki eru til nú þegar eða hafa ekki þrifist sem skyldi í garðinum þar sem framræsla er ónóg.

Á þessu ári er einnig fyrirhugað að uppfæra verulega heimasíðu Lystigarðsins. Ætlunin er að koma inn lýsingum á öllum tegundum íslensku flórunnar á ensku og íslensku með myndum. Þar að auki verður komið inn á ýmiskonar not sem hafa má af ýmsum tegundum íslensku flórunnar t.d. í lækningaskyni og ýmiskonar þjóðtrú sem tengist ýmsum tegundum og annað sem tengist þeim á einn eða annan hátt. Með þessari viðbót verður heimasíða garðsins orðin afar öflug heimild um þann garðagróður sem rækta má hérlendis og auk þess má finna þar ýmiskonar fróðleikskorn og ræktunarleiðbeiningar.

Ekki var farið út í að halda sérstaka afmælishátíð að þessu sinni enda aðhald og sparnaður aðall Akureyrarbæjar. Ákveðið var að slá afmælinu saman við þá menningarvöku sem er haldin sem næst á afmæli bæjarins enda er það nokkuð nærri afmæli Grasagarðsins sem telja má að sé um miðjan ágúst.

Vonandi eiga allir eftir að skemmta sér vel á menningarnótt en mega þá muna að grasadeild Lystigarðsins er án efa ákveðinn menningarauki fyrir bæinn.

Á næstu árum og áratugum á grasagarðurinn eftir að dafna og þroskast og vera áfram sú perla sem árlega dregur að ótrúlegan fjölda ferðamanna til Akureyrar. Plássleysi kemur þó til með að há garðinum í náinni framtíð. Því er nú kominn tími til að fara að huga að samstarfi við nágranna okkar á FSA og í Menntaskólanum og vonandi verður það til þess að hægt verði að stækka garðinn smám saman í náinni framtíð.

Að lokum vil ég þakka öllum, háum sem lágum sem lagt hafa sitt að mörkum til fegrunar í Lystigarði Akureyrar frá upphafi.

Akureyri ? 18. ág. 2007 ? Björgvin Steindórsson
Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is