┌r ljˇ­inu BarmahlÝ­ eftir Jˇn Thoroddsen
Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástaraugu
ungur réð ég festa,
blómmóðir bezta!
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Grasflatir

Flestir garðeigendur hafa gras í görðum sínum í meira eða minna mæli. Grasið er oftast sú plöntutegund sem minnsta athygli og umhyggju fær frá hendi garðeigandans. Flestir standa í þeirri meiningu að gras þrífist nánast af sjálfu sér hvar sem er. Svo er þó ekki og til að eignast góða grasflöt sem getur orðið garðinum til sóma og notast garðeigandanum í áravís þarf að vanda sérlega vel til undirbúningsins og viðhald þarf einnig að vera gott. Hér á eftir verða gefin nokkur heilræði um gerð grasflata og einnig fjallað lítillega um viðhald og hirðingu grassvæða.

Eigum við að hafa gras í garðinum og þá hvar?

Gras má nota á flestum stöðum í garðinum og flestir leggja það á sig að slá garðinn reglulega. Með því móti fæst slitþolin sterk grasflöt sem þarf að vera á þeim stöðum í garðinum sem mikið mæðir á t.d. við leiksvæði barnanna, við veröndina, kring um snúrurnar og matjurtagarðinn og fleira mætti nefna.

Séu tilteknir einhverjir staðir í garðinum þar sem nota ætti eitthvað annað en gras þá væru það helst skuggsælustu staðir garðsins s.s. norðan og austan við húsið, en grastegundir eru langflestar Ijóselskar plöntur sem þrífast illa í miklum skugga. Einnig mætti nefna að ekki ætti að nota gras í bratta stalla.

Einkennandi fyrir gras.

- Gras er lifandi efni sem þarfnast mikils eftirlits og umhirðu.

- Gras endurnýjar sig reglulega þannig að það þolir mikinn ágang.

- Gras er mjúkt og hentar vel bæði börnum og fullorðnum til að leika sér á, það er gott að ganga á því og það virkar svalandi í miklum hita.

- Grasflatir eru hreinlegar, það má ganga á þeim án þess að skitna á fótunum.

- Gras gefur lit í föt eins og flestir kannast við og ætti því að forðast átök í sparifötunum á grasflötinni.

Hvaða eiginleika þurfa grastegundir að hafa.

Hvaða hugmyndir svo sem við höfum um grastegundir þá verða þær að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta talist góðar í skrúðgarða.

Eftirfarandi þættir eru mikils metnir meðal garðeigenda.

1. Grasið verður að vera lágvaxið og helst hægvaxta.

2. Það verður að þekja vel yfirborð (vera þétt).

3. Rótarkerfi verður að vera þétt og hafa tilhneigingu til að binda yfirborð.

4. Verður að geta þakið í sár sem myndast í grasflötum fljótt og örugglega.

5. Verður að vera dökkgrænt, grænka snemma á vorin og sölna seint á haustin.

6. Verður að vera fullharðgert miðað við íslenskar aðstæður og vetrarþol verður að vera gott.

Bestu tegundir sem tiltækar eru í dag og uppfylla flest þessara skilyrða eru:

1 . Vallarsveifgras (Poa pratensis) t.d. afbrigðið 'Fylking` sem er víðskriðul með þykkan svörð, hart yfirborð, þétt rótarnet, góðan blaðvinkil, lágvaxið og dökkgrænt.

2. Túnvingull (Festuca rubra) t.d. afbrigðið 'Leik' sem er fíngert, þurrt, mjúkt, þétt, hefur þéttan og þykkan svörð, gott blaðhorn, fremur lágvaxið og dökkgrænt.

Góð skrúðgarðablanda samanstæði td. af helmingi að magni af hvorri þessara tegunda. Ef fólk vill fá græna slikju á lóðina mjög fljótt mætti blanda rýgresi (Lolium perenne) í fræblönduna en það er einær tegund sem deyr strax fyrsta veturinn. Taka skal vara við að nota það í of miklu magni þar sem það er frekt og tekur mikið frá öðrum tegundum, svo mikið að það getur hreinlega drepið þær (5% hámark að magni í áður nefnda blöndu).

Ýmsar aðrar blöndur af áðurnefndum tegundum mætti hugsa sér. Nota má meira magn af vallarsveifgrasi ef flötin þarf að vera sérstaklega slitþolin. Í hálfskugga ætti að nota meira af túnvinglinum þar sem hann er skuggþolnari og að lokum mætti nefna að fyrir þá sem ekki nenna að vera sífellt að snyrta kanta í garðinum þá hentar túnvingullinn einnig betur þar sem hann er ekki eins skriðull og vallársveifgrasið. Hver og einn verður í raun og veru að hugsa upp sína blöndu í samræmi við þarfirnar.

Jæja, þegar markmiðin eru orðin Ijós, er ekki úrvegi að huga aðeins að þeim undirbúningi sem talað var um að væri svo mikilvægur strax í byrjun.

Undirbúningur sáningar.

Fyrsta málið er að hreinsa rætur, steina, torfusnepla, rusl, steypuafganga o.fl. af því svæði sem sá á í. Þegar því er lokið má taka til við að grófjafna svæðið. Í því sambandi má helst geta þátta s.s. að leitast við að láta yfirborðið halla frá húsi fremur en að því og sé nauðsynlegt að koma fyrir einhverskonar drenlögnum þá er það gert á þessu stigi.

Þegar grófjöfnun er lokið er yfirborðslag jarðvegsins unnið niður á 30 sm dýpi með jarðvegstætara. Fyrst er gróftætt og því næst er farið í endurtekna hreinsun og grjót og rusl ýmiskonar sem upp kemur við tætingu fjarlægt af svæðinu. Áður en lokatæting fer fram er áburði bætt í jarðveginn. Annað hvort er þá notaður tilbúinn eða lífrænn áburður. Af tilbúnum áburði má mæla með ca. 6-8 kg af garðáburði á hverja hundrað fermetra, en sé notaður húsdýraáburður þá má nota um 100 kg á hverja hundrað fermetra. Sé þörf á að kalka jarðveginn er það einnig gert á þessu stigi. Sé jarðvegsbyggingin óhentug til grasræktar má reyna einhverjar úrbætur t.d. að bæta sandi og lífrænum jarðvegi í leirkenndan jarðveg svo eitthvað sé nefnt. (Sé um algeran grodda að ræða er ráðlegt að slétta fyrst undirlagið í 15-30 sm hæð undir endanlegu yfirborði og keyra síðan inn á svæðið góðri gróðurmold sem yfirborðslag fyrir grasið til að vaxa í.)

Nú er farið með tætarann yfir í lokaumferð og allt svæðið tætt vel og vandlega. Þessu næst verður að þjappa allt svæðið vel og vandlega annaðhvort með fótþjöppun eða með valtara. Um leið er unnið að því að fínslétta svæðið og tína burt

grjót, rætur og annað sem komið hefur upp í lokatætingunni. Best er að skipta flötinni upp í smærri einingar, reka niður hæla með nokkru millibili, setja út á þá hæðarpunkta og strengja síðan snúrur á milli punktanna og fínslétta svæðið eftir þeim.

Sáningin.

Þegar þessari undirbúningsvinnu er lokið er komið að sjálfri sáningunni. Hún þarf einnig að framkvæmast eftir kúnstarinnar reglum.

Sá má með ágætisárangri bæði vor og haust en þar sem hætta er á miklum vatnavöxtum yfir veturinn ætti fremur að sá að vori. Haustsáningu ætti að framkvæma u.þ.b. 1 mánuði fyrir fyrstu alvarlegu frostin.

Jarðvegurinn verður að vera hæfilega rakur þegar sáð er hvorki of þurr né of blautur. Fræþörf er u.þ.b. 1 kg á hverja hundrað fermetra og er um að gera að reyna að komast af með eins lítið magn og hægt er. Sé lítið magn notað verður grasið gisnara í fyrstu en hver einstaklingur verður sterkari og grasflötin verður betri þegar til lengri tíma er litið. Of þétt sáning leiðir til hins gagnstæða. Flötin verður viðkvæmari vegna mikillar samkeppni einstaklinganna um Ijós, vatn og næringu.

Til að ná sem jafnastri sáningu er fræmagninu oft skipt upp í tvennt, flötinni skipt niður í reiti og síðan sáð, fyrst í aðra áttina og síðan hina.

Þegar sáningu er lokið er tekin fram hrífa og rakað létt yfir alla flötina. Fræið er þannig hrist aðeins niður fyrir yfirborðið og fær þar betri aðstæður til spírunar. Að lokum er valtað yfir alla flötina með valtara til að binda fræið sem best í jarðveginum.

Viðhald, fyrsta sumarið.

Í framhaldi af sáningu verður umhirða að vera allnokkur og passa verður uppá að umgangur sé í algjöru lágmarki á flötinni allavega fyrsta árið (ekki fullsterk fyrr en eftir 3 ár). Halda verður jöfnum raka á meðan spírun á sér stað og vökva létt yfir allt svæðið eftir þörfum, þó þannig að ekki myndist pollar eða jarðvegur fari að renna til.

Illgresi getur verið vandamál í sáðflötum sérstaklega fyrstu árin. Ráðast verður gegn vandanum sem fyrst og reyna að útrýma illgresinu með einhverju móti. Sé um lítið magn að ræða má reyna að stinga upp og reyta burtu, en til eru ýmiskonar eiturefni gegn rótarillgresi sem eyða öllum tvíkímblöðungum en láta einkímblöðunga s.s. gras óáreitt.

Reglulegur sláttur og góð umhirða gengur einnig frá flestum tegundum illgresis þegar til lengri tíma er litið.

Atriði sem vert er að hafa í huga strax í byrjun er að slá grasið ekki of snöggt fyrstu skiptin sem sláttur fer fram. Best er að klippa í 8-10 sm hæð til að byrja með en þegar flötin hefur náð sér þá má slá allt niður í 4-5 sm hæð (alls ekki neðar en 3 sm). Í mikilli þurrkatíð ætti ekki að snöggslá nema því sé fylgt eftir með góðri vökvun.

Þökur á grasflatir.

Sé þolinmæði af skornum skammti og/ eða þörf sé á að fá slitsterka grasflöt samsumars ætti að huga að því að þökuleggja svæðið. Undirbúningur er eins og áður er lýst og má alls ekki fúska á honum þó um þökulagningu sé að ræða. Fyrst er grófjafnað, hreinsað og tætt. Síðan hreinsað aftur, áburðarefnum bætt í jarðveginn, tæting endurtekin og jarðvegurinn þjappaður og fínsléttaður í það horf sem við viljum hafa lóðina í.

Þá má rúlla út þökum yfir alla flötina eins og gólfteppi. Það sem helst þarf að varast er að þjappa þökunum ekki of fast saman þannig að holrúm myndist einhversstaðar undir þeim, en það leiðir til þess að þær ná ekki að ræta sig og visna upp á nokkrum tíma.

Árlegt lágmarksviðhald.

Þegar grasið fer að taka við sér snemma vors er byrjað á því að raka allar flatir með garðhrífu og fjarlægja allan mosa, rusl, lauf og annað sem hindrar það að loft komist niður í svörðinn.

Síðan er dreift 3-4 kg. af alhliða garðáburði t.d. Græði 6 á flatirnar snemma vors. Í júlíbyrjun er síðan gefinn hálfur skammtur (1-2 kg/100 ferm.) og þetta endurtekið 2-3 sinnum síðar um sumarið á u.þ.b. hálfs mánaðar fresti.

Gott er að kalka á nokkurra ára fresti og er þá kalkað að hausti eða mjög snemma vors 10-20 kg pr. 100 ferm.

Reglubundinn sláttur er nauðsynlegur til viðhalds og fegrunar. Tilgangurinn með grasslættinum er að hluta til að fjarlægja efsta hluta blaðmassans og að hluta til að byggja upp og varðveita frískt og þétt ástand grassins. Eins og hjá öllum öðrum plöntum er sterkt samhengi milli undir- og yfirvaxtar grasplöntunnar. Yfirvöxturinn (blaðmassinn) verður að vera það mikill að blöðin geti framleitt næga næringu handa rótunum til að þær deyi ekki úr sulti og ræturnar verða að vera það sterkar að þær geti staðið undir því hlutverki sínu að taka til sín vatn og næringu úr jörðinni handa allri plöntunni. Nýspírað gras er ekki slegið eins og áður er nefnt fyrr en það hefur náð 8-10 sm hæð (öll orka sem hægt er verður að ganga niður til rótarkerfisins svo að það nái að þroskast sem best). Síðan má slá það nær eða í 4-6 sm hæð. Í stuttu máli má segja að hátt gras gefur sterka einstaklinga með mikinn en fremur gisinn blaðmassa og þ.a.l. mikið og djúpt rótarkerfi. Því þéttara (nær) sem slegið er þeim mun fallegri verður flötin, graslagið verður þéttara, en rótarkerfið stendur grynnra og meiri hætta verður á sköðum í þurrka og kuldatímabilum.

Vökva verður síðan eftir.þörfum, en í því sambandi má geta þess að best er að vökva mikið í einu og fremur sjaldan, og einnig þess að vökva ekki yfir hádaginn í steikjandi sól.

Loftun.

Sé jarðvegurinn orðinn mjög troðinn á köflum þarf að meðhöndla þessi svæði sérstaklega. Grasið þrífst greinilega illa og ástæðan er sú að ræturnar ná ekki að anda (taka til sín súrefni) í þeim mæli sem þær þurfa. Einnig getur vatnsskortur verið fyrir hendi ef jarðvegurinn er orðinn svo þjappaður að vatn nái ekki að hripa niður í hann heldur rennur burtu á yfirborðinu.

Farið er því á staðinn með stungugaffal og svörðurinn gataður reglubundið og þétt yfir allt það svæði sem ágangs gætir að einhverju marki. Síðan er sandi dreift yfir allt svæðið og hann rakaður ofan í götin eftir föngum til þess að loftunin virki sem lengst. Sé þess talin þörf getur verið gott að leggja stiklur á svæði þar sem sífelldur átroðningur er á m.a. í kring um snúrur eða leiktæki til að hlífa grasinu við þessari ofþjöppun ájarðveginum.

Mosi.

Mosi er algengt vandamál í lóðum, sérstaklega á skuggsælum stöðum í garðinum. Fer þá saman að raki er gjarnan meiri og engin notkun er á flötum á þessum stöðum. Kjörskilyrði fyrir mosa er léttsúr fremur rakur, áburðarsnauður jarðvegur þar sem skugga nýtur.

Fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr mosamyndun eru því m.a. eftirfarandi:

Ø 1 . Góð framræsla frá byrjun, sanda, gata og tæta upp eldri flatir með mosatætara eða hrífu. Sé jarðraki enn of mikill ætti að huga að framræslu lóðarinnar.

Ø 2. Góð birta. Nauðsynlegt getur verið að grisja krónur eldri trjáa sem farnar eru að skyggja á flatir í miklum mæli, eða hreinlega að hugsa skipulag garðsins upp á nýtt og planta einhverjum hentugum undirgróðri sem þolir skugga undir tré eða í skuggahorn garðsins.

Ø 3. Reglulegur sláttur og hirðing, sérstaklega raksturinn stuðlar að því að grasið þéttist, svörðurinn styrkist og grasið á auðveldara uppdráttar en mosinn.

Ø 4. Regluleg áburðargjöf og kölkun (sem afsýrir jarðveginn) er nauðsynleg.

Ø 5. Regluleg notkun grasflatanna gerir þær slitsterkari, svörður verður þéttari og mosi á ekki mikla möguleika.

Að lokum.

Ræktun grass er greinilega ekki eins einfalt og margir hafa haldið. Sést það vel á því að enn sem komið er eru gullfallegar grasflatir fremur sjaldséðar hérlendis. Þó fjölgar þeim ár frá ári og mjög margir eru farnir að leggja metnað sinn í það að hafa grasið í garðinum í toppumhirðu eins og annan þann gróður sem þar er ræktaður.

Rennisléttar og vel hirtar grasflatir eru ávallt augnayndi jafnt fyrir eigendur sem og gesti og gangandi. Það er því til mikils að vinna þegar hugað er að gerð og hirðingu grasflatarinnar og vandaður undirbúningur ásamt natni við hirðingu kemur til með að margborga sig þegar fram líða stundir.

BSt. '91Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is