Mßlshßttur
Eigi fellur tré við hið fyrsta högg.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Har­ir haustlaukar

Haustlaukar er samnefni yfir þá lauka og hnýði sem sett eru niður að hausti til og blómstra vorið eða sumarið eftir og vonandi sem flest vor þaðan í frá. Áður en snjóa leysir að fullu eru þessir gleðigjafar farnir að skjóta sprotum sínum upp úr jörðinni. Þeir lífga síðan upp á tilveruna með fjölmörgum glaðlegum blómlitum þegar lengra líður á vorið.

Það er talið betra að setja laukana niður snemma hausts áður en frystir, til þess að rótarvöxtur geti hafist. Aðaltíminn til þess að gróðursetja haustlaukana er í lok september eða í byrjun október. Reynslan hefur þó sýnt að það er í lagi að planta út haustlaukum fram í harða frost. Jafnvel veit ég dæmi þess að menn hafi notað járnkall til þess að brjóta upp jarðklakann sem kominn var og sett laukana ofan í holuna og þeir hafa síðan komið upp glaðhlakkalegir næsta vor. En að sjálfsögðu ætti ekki að beita þeirri aðferð heldur planta tímanlega til þess að tryggja hámarks uppskeru, litadýrð og gleði að vori.

Haustlaukum má planta út víðast hvar í garðinn. Upplagt er að planta út í beð við innganginn að húsinu, í beð inn á milli trjáa og runna og jafnvel getur verið mjög skemmtilegt að setja nokkra lauka ofan í grasflötina því þeir koma upp áður en grasið fer að vaxa að ráði og setja mjög skemmtilegan svip á umhverfið. Lágvaxin laukblóm fara vel í steinhæðum og einnig má bæta þeim inn í fjölæringabeð. Þá er tilvalið að planta grúppum í verðandi sumarblómabeð og taka þannig forskot á blómaskrúðið. Fallegast er að gróðursetja laukblóm í þyrpingar litlar eða stórar.

Krókusar, perluliljur, vetrargosar og postulínslilja eru t.d. heppilegar í steinhæðir þar sem þær geta staðið óhreyfðar árum saman.

Undirbúningur og áburðargjöf.

Jarðvegurinn er unninn 10-15 sm niður fyrir þá hæð sem laukjurtirnar eru lagðar í ef um laukabeð er að ræða. Allt illgresi er fjarlægt úr svæðinu. 5-7 sm lagi af blöndu af safnhaugamold (eða hvítmosatorfi), sandi og beinamjöli er síðan dreift jafnt yfir svæðið og unnið saman við jarðveginn (eykur rakaheldni, bætir loftun og framræslu).

Séu laukjurtirnar lagðar hver fyrir sig þá er jarðvegurinn leystur upp u.þ.b. 10 sm niður fyrir lagningardýptina og 1 hnefa af blöndu af sandi (fremur grófum) og lífrænum áburði (t.d. beinamjöli) er síðan settur í botn hverrar holu (auðveldar rótun). Áburðarþörf er annars fremur lítil hjá flestum laukjurtum. Þar sem laukjurtir vilja helst lífrænan jarðveg er gott að bæta með laufmold, dökkri yfirborðsmold, vel rotnuðum búfjáráburði og/eða safnhaugamold. Mjög vel hefur reynst að blanda beinamjöli í jarðveginn en það er fosfórauðugt, virkar fremur hægt og þ.a.l. lengi (rótarmyndun verður örari) u.þ.b. 2,5-3 kg á hverja 10 fm, eða u.þ.b. 1 teskeið í hverja holu og ein tesk. umhverfis hvern lauk á hverju hausti þar á eftir.

Venjuleg frjó garðmold er annars kjörin fyrir lauka. Góð framræsla er mikilvæg, því í vatnssósa jarðvegi ná laukarnir ekki þeim þroska sem gefur besta blómgun og meiri hætta er á rotnun. Keisarakróna og vepjulilja og fleiri tegundir launa til að mynda ríkulega fyrir að hafa sand næst sér, þar sem þær eru gróðursettar.

Ekki má vera holrúm undir laukunum og rótarstykkið verður að snúa niður. Ef jarðvegur er mjög þurr er gott að vökva vel eftir gróðursetningu.

Hve djúpt á að gróðursetja?

Á umbúðum um laukana eru yfirleitt upplýsingar um hæð, lit, gróðursetningardýpt og hversu þétt á að gróðursetja þá. Gróðursetningardýpt er almennt séð 2,5-3 sinnum dýpra en mesta þvermál laukjurtanna. Betra er að gróðursetja fremur of djúpt en of grunnt, þar sem að laukjurtirnar fjölga sér hægar á meira dýpi og þarf þ.a.l. að skipta þeim sjaldnar. Einnig er minni hætta á frostskemmdum og músaáti ef dýpra er gróðursett. Laukjurtir sem hafa tvöfalt rótarkeri, annað til næringaröflunar og hitt til fjölgunar. Krókusar og fleiri tegundir stjórna þessu að nokkru leyti sjálfar með því að koma afkvæmum sínum fyrir á heppilegum stöðum með tilliti til frostskemmda.

Best er að setja laukana um 1-2 sm dýpra en leiðbeiningar segja til um. Vetrarfrostin koma fyrr og eru meiri á Íslandi en í suðlægari löndum þaðan sem gróðursetningardýpt sem gefin er upp fyrir hverja tegund. Þessi ráðstöfun gefur laukunum lengri tíma til að róta sig og búast undir vetrardvalann. Einnig er ráð að þekja moldina með laufi og greinum og öðru sem hlíft getur fyrir fyrstu frostum.

Umhirða.

Á sumrin vaknar spurningin. Má ekki taka þessi druslulegu blöð þegar laukblómið er fallið? Helst ekki, því ef laukurinn á að safna forða til næsta árs blómgunar og mynda nýja lauka verða blöðin að standa og fá næringu og vatn, þar til þau á tilsettum tíma gulna og visna niður. Strax eftir blómgun á að skera burtu efsta hluta stilksins með blómbotninum svo plantan leggi ekki orku sína í fræmyndun.

Laukar eins og páskaliljur, krókusar, vetrargosar, stjörnulilja, postulínslilja, perluliljur, snæstjörnur, bótanískir túlípanar o.fl. geta staðið óhreyfðir í nokkur ár áður en þörf er á að taka laukana upp og skipta þeim og grisja. Blómgun er árviss en í slæmu árferði getur dregið úr henni.

Stórblómstrandi túlípanar og hyasintur ná sjaldnast að þroska blómið í lauknum á einu sumri eftir fyrstu blómgun, og þarf því nokkuð umstang til að taka upp laukana, þurrka þá, velja úr þá stærstu og gróðursetja aftur. Handhægast er því að kaupa nýja lauka á haustin af þessum tegundum og njóta til fulls hinnar tignarlegu blómgunar á vorin.

Laukar drifnir til inniblómgunar að vetri.

Við drifningu má nota ca. 10 sm háa potta, kassa, skálar eða önnur þvíumlík ílát. Sé moldarblanda notuð er nauðsynlegt að hafa gott afrennslisgat á ílátinu. Sumir nota hreinan grófan sand eða möl sem rótarfesti. Þá þarf líka að nota vatn sem ekki má standa hærra en rétt upp undir laukinn. Þegar laukarnir hafa verið settir í ílátin er þeim komið fyrir á köldum dimmum stað. Ákjósanlegast hitastig er um 6-8°C. Ræting tekur u. þ. b. 10--12 vikur. Forræktaðir (forkældir) laukar- jólahýasintur, jólatúlípanar og páskaliljur (t.d. Narcissus Tazetta t.d. 'Paperwhite', hvít og 'Grand Solei D'OR' gul) þurfa þó skemmri tíma - um 8 vikur við ca. 12°C. Þegar (og ekki fyrr) ræturnar hafa fyllt ílátið og spírurnar eru ca. 5 sm háar má taka ílátin fram í fulla birtu. - NB: Hýasintur þurfa að vera í algeru myrkri uns blómspírurnar eru komnar vel yfir laufblöðin. Best er að fara hægt af stað með hitastigið, byrja með ca. 10-15°C og hækka smám saman upp í 18-20°C. Heillaráð er að drífa laukana eins langt frá miðstöðvarofnunum sem auðið er. Varist að láta laukana þorna upp, vökvið lítið í senn en úðið þeim mun oftar yfir með úðakönnu. Jarðvegurinn á að vera jafnrakur, ekki rennandi blautur.

Túlípanalauka, krókushnýði og aðra smálauka á að setja þannig að rétt sjái í efsta hluta þeirra en 1/3 af hyasintu- og páskaliljulaukum á að standa uppúr.

Pottþéttar tegundir haustlauka.

Fyrir nýgræðinga í garðyrkjunni er vænlegast að byrja á þeim tegundum sem koma upp ár eftir ár og mynda sífellt stærri og flottari breiður. Tegundir sem koma til greina eru fjölmargar og í þessari grein er aðeins minnst á nokkrar af þeim allra öruggustu.

Krókusar (Crocus).

Náttúruleg heimkynni eru fjalllendi Suður-Evrópu og Austurlanda nær. Latneska nafnið er komið úr grísku "krokos" og þangað úr hebresku "karkom" sem mun þýða Saffran, en það er krydd unnið úr fræflum blómanna. Í íslensku biblíuþýðingunni er nafnið krókus notað og fer vel (Ljóðaljóðin 4:14).

Krókusinn er sólelsk harðger planta. Frjór, nokkuð sendinn eða jafnvel smágrýttur jarðvegur hentar honum best, en hann er annars ekki vandfýsinn á staðarval og virðist þrífast dável víðast hvar, þótt ekki verði hann jafn tilkomumikill í skugga eða þéttum jarðvegi. Fjölmörg yrki eru á boðstólum á hverju hausti í blómaverslunum.

Hnúðunum er plantað 7-9 sm djúpt og fer best á að setja einn lit í senn í þyrpingar (10-15 saman) með ca. 10 sm bili á milli hnúða.

Blómgast hér í mars-maí eftir árferði og afbrigðum. Blómlitir: ýmis afbrigði - hvítir - skærbláir - dökkbláir - fagurgulir - dökkæðóttir. Hæð ca. 10-15 sm.

Garðakrókus (Crocus 'Saturnus')

Auðvelt er að drífa krókusa: Plantað þétt (ca. 3 sm á milli hnúða) í grunnan pott eða skál í september. Geymt á aðgengilegum stað úti á svölum eða í garðinum, skýlt lauslega fyrir regni og harðfrostum, teknir inn og drifnir við 18-20°C á björtum stað í des.-febr. Vökvað aðeins lítillega virðist moldin of þurr. Gott er að úða oft en lauslega með vatni úr úðakönnu.

Hátíðaliljur (Narcissus).

Hátíðaliljur (Narsissa - Ljóðaljóðin 2:1 ) er í raun sameiginlegt heiti á páskaliljum, hvítasunnuliljum, skírdagsliljum og fleiri tegundum. Náttúruleg heimkynni eru einkum í Miðjarðarhafslöndunum og Austurlöndum nær. Þær hafa verið ræktaðar um aldaraðir og er nú til slíkur aragrúi afbrigða kynbættra tegunda að erfitt er að segja til um hver er hvað. Enda er þeim nú frekar raðað niður í hópa eftir blómgerð og blómgunartíma.

Latneska ættkvíslarheitið er dregið af sögninni um unglinginn Narkissos er sat sem bergnuminn við silfurtæra lind og leit sína eigin spegilmynd uns hann tærðist upp í "fagnaðarlausri sjálfselsku" og líkami hans varð að þessari jurt.

Skírdagslilja (Narcissus 'Daydream')

Páskaliljur eru settar niður með um 10-15 sm millibili og um 10-15 sm djúpt í smáhópa í vel frjóan, framræstan jarðveg. Ekki þykir fara vel á að blanda mikið saman afbrigðum. þær geta vaxið og blómstrað árum saman á sama stað, en blómstærðinni hnignar gjarnan með árunum þegar þrengist að laukunum. Því er gott að taka þær upp á nokkurra ára fresti og skipta þeim. þetta er gert um dvalartímann (þ.e. þegar grösin hafa sölnað - venjulega í júlí). Laukunum skal plantað strax niður aftur eins og um nýja lauka væri að ræða (gott er um leið að blanda í jarðveginn gömlum búfjáráburði (um 2 kg/fm) eða Blákorni (um 50 g/fm).

Blómgast hér frá apríl og fram í maí-júní eftir afbrigðum.

Blómlitir: gulir, hvítir. Hæð yfirleitt á bilinu 20-50 sm.

Snæstjarna (Chionodoxa forbesii - áður Chionodoxa luciliae).

Ættuð frá Litlu-Asíu. Latneska nafnið kemur úr grísku frá "khioni" : snjór og "doxa" : Ijómi. Snæstjarnan er afar harðger og þurftarlítil, sólelsk en þrífst vel í hálfskugga undir trjám eða í steinhæðum. Laukunum er plantað út í garðinn sem fyrst á haustin 6-7 sm djúpt með 4-5 sm millibili. Blómgast hér í apríl-maí.

Blómlitur skærblár með hvítri miðju. Til þó bæði hvít og bleik yrki. Hæð ca. 10-15 sm.

Snæstjörnu er hægt að drífa til inniblómgunar. Þá er plantað í potta og geymt úti undir skýli þar sem auðvelt er að ná þeim inn í febrúar og setja á bjartan, svalan stað (austur- eða vesturgluggi). Haldið moldinni hæfilega rakri - varist ofþornun eða ofvökvun.

Snæstjarna (Chionodoxa forbesii)

Vorboði (Eranthis hyemalis).

Náttúruleg heimkynni í Alpafjöllum. Latneska ættkvíslarheitið er dregið af grísku orðunum "eri" : snemma og "anthis" : blóm. Tegundinni er fjölgað með litlum hnýðum. Hægt er að planta vorboða að heita má hvar sem er í garðinum og eins í svalakassana.

Hnýðunum er plantað 3-5 sm djúpt með ca. 6-10 sm millibili.

Vorboðinn fjölgar sér töluvert og getur með tímanum myndað stórar samfelldar breiður. Fjölgunin verður örari sé hnýðunum plantað grunnt í upphafi (og einnig blómgast þeir u. þ. b. viku fyrr, en sé svo gert er þeim hættara við hnjaski við annað rót í beðunum. Blómgast hér í mars-apríl.

Blómlitur: hreingulur (sóleyjargult - blómin líkjast reyndar sóleyjum enda er vorboðinn af sóleyjaætt). Hæð ca. 7-10 sm.

Vorboðann er afar auðvelt að drífa í blóm inni frá miðjum janúar - bjart og svalt.

Vorboði (Eranthis hyemalis)

Vepjulilja (Fritillaria meleagris).

Náttúruleg heimkynni í dölum Mið- og Vestur-Evrópu. Latneska ættkvíslarheitið er dregið af "fritillus" : lítil krús, undirheitið "meleagris" höfðar til hinna sérkennilegu litbrigða í blóminu og þýðir akurhæna, þ. e. dröfnótt sem akurhæna.

Vepjuliljan er mjög skemmtileg í útjöðrum steinhæða, runna- og trjábeða, helst eilítið upphækkuðum svo að drúpandi klukkulaga blómin njóti sín sem best. Frjór djúpur jarðvegur fremur rakur og vex jafnvel í sól sem hálfskugga. Laukunum plantað ca. 12 sm djúpt með ca. 10-12 sm millibili.

Best er að planta laukunum út sem fyrst á haustin, þar eð þeir eru fremur viðkvæmir fyrir uppþornun. Blómgast upp úr miðjum maí.

Blómlitir: dauffjólubláir með dekkri dröfnum, einnig hreinhvít afbrigði.

Hæð ca. 20-30 sm.

Vepjulilja (Fritillaria meleagris 'Alba')

Vetrargosi (Galanthus nivalis).

Náttúrleg heimkynni eru skógivaxnir ásar og fjallahlíðar Mið- og Vestur-Evrópu. Latneska ættkvíslarheitið er dregið af grísku orðunum "gala" : mjólk og "anthis" : blóm.

Glaðlegum klukkum vetrargosans skýtur upp hvarvetna í garðinum um leið og vorar. Ekki er hann vandur að vaxtarstað - kröfum hans er fullnægt sé jarðvegur ekki vatnssósa eða súr.

Laukarnir þola illa uppþornun við geymslu og er best að planta þeim út sem fyrst í smáþyrpingar ca. 5-8 sm djúpt með ca. 5 sm bili á milli lauka.

Blómgast hér í mars-apríl og jafnan fyrstur þeirra lauka og hnýða sem hér hefur verið fjallað um.

Blómlitur: mjólkurhvítur; til er fyllt afbrigði. Hæð ca. 10-20 sm.

Vetrargosar eru ákjósanlegir í svalakassa með krókusum og vorboða.

Vetrargosi (Galanthus nivalis)

Perluliljur (Muscari).

Náttúruleg heimkynni eru í Litlu-Asíu og S-Evrópu.

Latneska ættkvíslarheitið er dregið af "muscus" : moskus og vísar til ilman blómanna.

Perluliljur eru lágvaxnar, harðgerar og nægjusamar jurtir, blómlitir eru bláir eða hvítir, blómgast í maí-júní. Hæð 10-20 sm. Blómin eru mörg saman í þéttum klasa og minna á perlur. Blómlitur: fagurbláir litir algengastir.

Laukarnir eru lagðir 8-10 sm djúpt með um 10 sm millibili, þrífast hvar sem vera vill, en henta ágætlega í svalakassa, steinhæðir og trjábeð.

Demantslilja (Muscari armeniacum)

Síberíulilja (Scilla sibirica).

Náttúruleg heimkynni í norðanverðum Úralfjöllum og Síberíu. Latneska ættkvíslarheitið er komið af gríska nafninu á lítilli laukjurt, sælauk, sem vex við Eyjahafið en er fjarskyld stjörnuliljum.

Stjörnuliljur eru almennt fremur þurftarlitlar, harðgerar og tiltölulega fljótar að mynda fallegar breiður. Þær kjósa helst frekar gljúpan jarðveg og sólríkan stað. Laukarnir eru lagðir um 8 sm djúpt, allþétt saman (ca. 5 sm). Hæð um 15 sm, blómgast í lok maí. Blómlitur blár en til er hvítt yrki.

Síberíulilja (Scilla sibirica)

Náskyld stjörnulilju er spánarlilja (Hyacinthoides hispanica - Syn.: Scilla hispanica og Scilla campanulata). Heimkynni hennar eru Spánn og Portúgal. Blómstönglar hennar eru um 20-25sm, alsettir litlum klukkulaga, ilmandi blómum í bláum, bleikum eða hvítum litum. Laukarnir eru lagðir ca. 10 sm djúpt í þyrpingar með um 10 sm bili á milli lauka. Best er að leyfa laukunum að vera sem mest óáreittum á vaxtarstað fyrstu árin þar eð þeir eru nokkuð viðkvæmir fyrir hnjaski. Hentar því best í trjáa og runnabeð í barrtrjáabeð. Blómgast ekki fyrr en í júní.

Postulínslilja (Pusckinia scilloides).

Náttúruleg heimkynni eru fjöll í Kákasus og Litlu-Asíu. Ættkvíslin nefnd eftir rússneskum greifa Púshkín og er aðeins ein tegund í ættkvíslinni - scilloides vísar aftur á móti til þess að tegundin er lík stjörnulilju. Laukar eru lagðir um 8 sm djúpt og með um 10 sm millibili. Hentar vel í steinhæðir eða í trjáa og runnabeð.

Hæð um 15 sm, blómgunartími í maí, blómlitur fölfölblár eða nær hvítur með blárri rák eftir miðju.

Postulínslilja (Pusckiniana scilloides)

Sveiptúlípani (Tulipa tarda)

Að lokum verður hér minnst lítillega á einn túlípana en almennt séð eru þeir fremur viðkvæmir og spjara sig fremur illa hérlendis. Sveiptúlípanini er þó undantekning frá þeirri reglu. Hann á uppruna sinn í A - Túrkestan og hefur reynst afar harðgerður hérlendis. Sé hann ræktaður á sólríkum stað í frjóum jarðvegi og í þokkalegu skjóli þá breiðir hann vel úr sér með árunum og sáir sér jafnvel út. Laukar eru lagðir á um 10 sm dýpi. Blómlitur gulur með hvítu í endann. Blómgast seint í maí eða byrjun júní.

Sveiptúlípani (Tulipa tarda)

Það sem ekki má klikka.

Að setja haustlaukana niður svo fljótt sem unnt er þar sem sumar tegundir þola illa geymslu og að ræting tekur 6-8 vikur og verður að fara fram í þýðri jörð.

Að framræsla sé í góðu lagi og að vatn setjist alls ekki að plöntunum að vetri til.

Að fjarlægja ekki grænu blöðin fyrr en þau eru farin að visna síðsumars, þar sem söfnun forða og vöxtur nýrra lauka hefst ekki fyrir alvöru fyrr en plantan hefur aflokið blómgun.

Að gæta þess að jarðvegurinn sé ávallt hæfilega rakur, allt fram til þess að grænu blöðin fara að visna.

Að lokum.

Vonandi hjálpar þetta greinakorn þeim sem hafa verið tvístígandi í laukaræktuninni við val á laukum og hnýðum sem þola rysjótt, íslenskt veðurfar. Umfjöllun um vandmeðfarnari tegundir verður að bíða betri tíma en þær eru fjölmargar tegundirnar sem ekki hefur verið getið hér.

Helstu heimildir:
Námsefni Garðyrkjuskóla ríkisins 1981
Illustrated encyclopedia of bulbs (margir höfundar)

Björgvin Steindórsson - júlí 2001Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is