Jˇnas HallgrÝmsson - ┌r ljˇ­inu DalvÝsa
Fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
flóatetur! fífusund!
fífilbrekka! smáragrund!
yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum;
fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Stˇrir fj÷lŠringar, au­veldir Ý umhir­u.

Í þessari grein verður fjallað um nokkrar tegundir stórra og sterkra fjölæringa. Þær eiga það sammerkt að vera harðgerar, eru nægjusamar og þurfa yfirleitt ekki uppbindingu. Allar eru þær kröftugar og þola að standa á sama stað í áraraðir án þess að þeim sé skipt. Af þessu leiðir sú einfalda staðreind að þær eru plássfrekar og verður að ætla þeim gott rými strax frá byrjun. Þurfa þær allt að einum fermeter hver planta til þess að ná fullum vexti og þrífast eðlilega.

Fái plöntur þessar nægilegt vaxtarrými og djúpan frjóan jarðveg geta þær vaxið nánast hvar sem er í garðinum. Þeim má planta inn á milli runna, í fjölæringabeð (blönduð), við húsveggi, meðfram girðingum eða nota þær sem stakstæðar plöntur í grasflöt svo einhver dæmi séu tekin.

Týshjálmur (Aconitum napellus) og geitaskegg (Aruncus dioicus) eru góð dæmi um plöntur sem þola nánast hvað sem er, allavega hvað varðar staðsetninguna í garðinum. Þær krefjast að vísu nokkuð jafns jarðraka en vaxa vel bæði í sól og hálfskugga. Þær blómstra vel í öllu árferði, jafnvel norðan og austan við hús. Vaxtarlag áðurnefndra tegunda er nokkuð ólíkt. Hjálmurinn er hár og grannur en geitaskeggið virkar þéttara og er með útbreiddari vöxt.

Dimmblár hjálmurinn fer mjög vel við hvíta og gula húsveggi t.d. með rósasortum eins og 'Splendens' og 'Persian Yellow'. Ljósgult geitaskeggið með fínlegum blómum fer aftur á móti betur við dökkan bakgrunn og er sérlega fallegt í hálfskugga með burknum, skrautgrösum og sígrænum gróðri.

Daglilja (Hemerocallis lilioasphodelus) af liljuætt er gulblómstrandi tegund sem er upprunnin frá Síberíu. Hún er sérlega harðger og má rækta hana nánast hvar sem er. Blómin ilma og eru góð til afskurðar. Hvert einstakt blóm endist ekki mjög lengi en hún blómstrar þó nokkuð lengi þar sem smáblómin koma hvert á fætur öðru.

Hún fer sérlega vel við tjarnir og læki í öllum venjulegum moldarjarðvegi. Blöðin eru falleg, löng og mjó og mynda fljótt fallegar kröftugar þúfur sem verða allt að 1 m. á hæð.

Útlagi (Lysimachia punctata) er algeng garðplanta hérlendis og hefur verið lengi í ræktun. Hafa verður gát á henni þar sem hún getur orðið full fyrirferðarmikil. Stinga verður reglulega utan úr henni til þess að hún breiðist ekki of mikið út.

Hún verður allt að einn metir á hæð og blómstrar miklu skrúði gulra blóma um mitt sumarið. Blómin halda sér betur í hálfskugga. Fer best með kraftmiklum plöntum sem þola vel ágang útlagans.

Bóndarósir (Paeonia) eru örugglega á meðal vinsælusta garðplantna sem eru í ræktun hérlendis. Þær blómstra yfirleitt um mitt sumar og halda fagurgrænum blöðunum langt fram á haust. Af blómunum stafar ljúfur ilmur og þær eru ágætar til afskurðar. Ýmsar sortir eru í ræktun en gamla góða bóndarósin (Paeonia officinalis) er duglegust þeirra allra. Af henni eru t.d. til hvít, rauð og bleik ræktunarafbrigði. Bóndarósir fara best einar saman í beði, gjarnan með hlutlausan bakgrunn, t.d. húshlið eða meðalháa skrautrunna. Þær þrífast best í góðri sól í frjóum kalkríkum jarðvegi og blómstra best ef þær fá að standa í friði svo árum skiptir. Þegar elsti hluti plantnanna (miðjan) fer að deyja og rotna er best að taka plönturnar upp og skipta þeim. Best er að geraþað að hausti til og varast að skipta þeim of smátt. Endurplantað er sem næst í sömu dýpt (ekki of djúpt þar sem það kemur í veg fyrir eða seinkar blómgun síðar meir) og þær stóðu áður og plöntunum gefið gott skýli fyrsta veturinn t.d. með því að leggja torf eða steinull yfir plönturnar síðla hausts.

Körfuburkni (Matteuccia struthiopteris) er harðger burknategund sem er stórvaxin (allt að 1 m.) með útbreidd fagurlega sveið stór laufblöð sem vaxa eins og trekt umhverfis styttri brúnleit sporablöð sem ekki visna niður að haustinu. Hann þarf góðan jarðraka og þrífst best í hálfskugga eða skugga í góðu skjóli. Getur breiðst nokkuð hratt út með rótarskotum. Áburðargjöf er ekki nauðsynleg.

Skjaldmeyjarfíflar (Ligularia) eru fjölmargir til fallegir, kröftugir og harðgerir. Blöðin eru stór, langstilkuð og mynda fallegar blaðbreiður og gulir þéttblóma stönglarnir geta teygt sig í allt að 2 m. hæð. Þeir þrífast best í djúpum mildum, frjóum, jafnrökum jarðvegi í sól eða hálfskugga. Fara mjög vel við tjarnir og læki eða aftast í beði með hlutlausan bakgrunn. Blómgast síðsumars frá ágúst og fram í september.

Bronslauf (Rodgersia podophylla) er ræktuð fyrst og fremst vegna blaðfegurðarinnar. Blöðin eru stór, handskipt og bronslituð eins og nafnið gefur til kynna. Getur staðið á sama stað svo árum skiptir svo fremi að vaxtarstaðurinn sé skjólsæll og jarðvegurinn djúpur og rakaheldinn. Þrífst bæði í sól og hálfskugga. Það breiðist allhratt út eftir að það hefur komið sér fyrir í jarðveginum með rótarstönglum og myndar á nokkrum árum feikifallegar blaðbreiður. Skipt þegar plantan fer að deyja að einhverju marki í miðjunni.

Stjörnur (Aster). Af þeim eru til fjölmargar bráðfallegar stórvaxnar tegundir (margar smávaxnar einnig) sem blómstra flestar síðsumars. T.d. má nefna Aster novae-belgii og Aster novae-angliae. Ýmsir blendingar eru einnig til og ganga þeir undir samheitinu Aster hybridus. Þeir eru yfirleitt ekki mjög áberandi að vorinu en þeim mun fallegri síðsumar og skarta sínu fegursta yfirleitt í lok ágúst og langt fram í september. Flestallir litir eru til í áðurnefndum ræktunarafbrigðum og eru stjörnurnar sérlega góðar til afskurðar.

Kúluþistill (Echinops ritro) er körfublóm og tilheyrir þar af leiðandi körfublómaættinni. Hann kemur snemma upp á vorin með skrautleg blöð sem líkjast þistilsblöðum, græn á efra borði en gráloðin á því neðra. Hann þroskar stinna blöðótta nokkuð greinótta stöngla yfir sumarið og síðsumars kemur í ljós hin einkennandi kúlulaga blómskipun bláleitra blóma á stöngulendana. Sé kúluþistillinn afskorinn tímanlega má nota hann í þurrblómaskreytingar sem nokkurs konar eilífðarblóm, en annars er hann góður til afskurðar og stendur lengi í vasa.

Skrautsúra (Rheum palmatum) eða skrautrabbarbari öðru nafni líkist mjög venjulegum rabbbarbara í vexti en blómin eru rauð og verulega falleg. Blöðin eru einnig með rauðleitum fallegum blæ og öll plantan er hin skrautlegasta. Blómstöngullinn getur orðið hátt í 2 m. á hæð við góð skilyrði og plantan verður með tímanum mikil um sig. Vex best í djúpum frjóum vel rakaheldum jarðvegi. Sé þörf á skiptingu er þykkum kjötmiklum rótunum skipt varlega að vori en er annars best að hún fái að standa óhreyfð í áravís.

Alpaþyrnir (Eryngium alpinum) þrífst best í vel framræstum léttum jarðvegi í góðri sól. Blöðin eru stór tennt, hjartalaga með blágrænum blæ og blómin eru einnig bláleit í kúlulaga skipan sem síðar verður aflöng. Skrautlegust eru þó reifablöðin undir blómskipuninni en þau eru í mislit (hálfgerðar strípur) frá grábláu yfir í stálblátt. Blómstrar síðsumars í 2-3 vikur en er einnig mjög falleg í fræi og nota má fræskipunina í þurrblómaskreytingar langt fram á haust.

Auðvitað má nefna miklu fleiri tegundir sem tilheyra þessum flokki kraftmikilla fjölæringa en einhvers staðar verður að setja punktinn yfir i-ið. Þó stenst ég ekki þá freistingu að nefna hér nokkrar tegundir til viðbótar í lokin sem allt að einu geta fallið hér undir en það eru. Campanula lactiflora, Campanula latifolia, Chrysanthemum maximum, Artemisia sp. , Centaurea macrocephala, Inula macrocephala, Inula helenium, Heracleum teg. - risahvönn t.d. og margar fleiri mætti svo sem nefna.

BSt.
Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is