Halldˇr Kiljan Laxness - Heimsljˇs

"Fegursta blómið, það lifir í huldum stað, fæstir fá nokkurntíma að sjá það, mörgum sést yfir það, nokkrir kunna ekki skil á gildi þess, þeir sem uppgötva það munu ekki sjá annað blóm síðan. Allan daginn hugsar maður um það. Þegar maður sefur dreymir mann það. Maður deyr með nafn þess á vörum."

Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Blßsˇlir (Meconopsis)

Blái valmúinn með ljóðræna útlitið eða blásólin (Meconopsis betonicifolia) er einkennistegund ættkvíslarinnar. Heimkynni tegundarinnar er í Himalaja fjöllum þar sem hún nýtur rakra sumra en þurra vetra. Hún er fjölær, afar falleg og eftirsótt garðplanta. Tegundin hefur verið ræktuð lengi hérlendis með góðum árangri.

Blásól (Meconopsis betonicifolia)

Tegundin líkist valmúa enda sömu ættar með hlutfallslega stór og falleg himinblá blóm með stórum kransi af gulum fræflum í miðju blómi. Reyndar þýðir latneski orðstofninn Mecon valmúi og opsis að líkjast og þannig passar þetta allt saman.

Hún er um 80cm há, beinvaxin og þarf ekki stuðning á skýldum stöðum. Hún þrífst mjög vel hérlendis og jafnvel betur en annars staðar í Evrópu og er skýringin fyrst og fremst sú að hún þolir ekki nema takmarkaðan sumarhita og ljókkar fljótt sé hiti mikill í lengri tíma.

Hvíta afbrigði blásólarinnar (Meconopsis betonicifolia 'Alba') er ekki alveg eins kraftmikið og blómsælt en þrífst samt vel hérlendis.

Aðrar tegundir.

Nokkrar góðar garðplöntur eru innan ættkvíslarinnar fyrir utan blásólina.

Mjög lík og álíka há er fagurblásól (Meconopsis grandis). Hún er með dekkri fagurblá blóm og laufblöð hennar eru fleyglaga neðst en annars eins og á blásól. Báðar tegundirnar eru breytilegar upp af sáningu og mynda blendinga innbyrðis sem hafa fengið sitt sérstaka heiti og nefnast glæsiblásól (Meconopsis x sheldonii).

Fagurblásól (Meconopsis grandis)

Heiðablásól (Meconopsis simplicifolia) er fjölær, upprétt og kraftmikil allt að 80 sm á hæð. Blómin stök á stöngulendum með 5-8 krónublöð, ljósblá með appelsínugulum fræflum.

Kóngablásól (Meconopsis regia) fjölær, allt að 60 sm með mjúkum hvítum eða fölgulum hárum. Blómin gul að lit með djúp appelsínugulum fræflum. Krónublöð fjögur, sjaldan sex. Ekki sú harðgerðasta en auðvelt að halda henni við með sáningu.

Gulsól (Meconoposis cambrica) er fjölær, 30-50 sm á hæð með gul eða rauðgul blóm sem líkjast mjög blómum á garðasól (valmúa). Fræmyndun er mikil og getur hún orðið til vandræða í görðum og á því frekar heima í blómaengi eða í sumarbústaðalandinu og öðrum stöðum þar sem hún má dreifast að vild. Fyllta afbrigðið Meconopsis cambrica 'Flore Pleno' er mun betri garðplanta.

Gulsól (Meconopsis cambrica 'Flore Plena')

Þyrniblásól (Meconopsis horridula) er tvíær, 60 sm há með bláfjólubláum blómum á háum blómstönglum síðsumars. Öll plantan er þakin stinnum gisnum gulleitum hárum sem geta orðið óþægilega hvöss og stingandi er hún eldist.

Silkiblásól (Meconopsis napaulensis) er einnig skammlíf með hvíthærða stöngla, 70 sm há með stórum rauðleitum blómum um mitt sumar. Þessum tegundum er auðvelt að halda við með sáningu.

Silkiblásól (Meconopsis napaulensis v. aurantiaca)

Ræktun.

Sem garðplöntur eru blásólir sjarmerandi og henta best í stóra, fallega fláka með plöntum sömu ættar og einnig fara þær vel með lyklum (prímúlum).

Blásólir eru með viðkvæmt rótarkerfi og líður best standi þær óhreyfðar á sama vaxtarstað. Lengi vel var því haldið fram að ekki mætti skipta blásól. Það er þó vel mögulegt. Grafa verður plöntuna varlega upp og skipta henni með plöntugaffli eða með því að reyta hana varlega í sundur. Pörtum verður að planta strax aftur og getur tekið þá nokkurn tíma að ná sér á strik aftur. Eru plönturnar þá nokkuð væskilslegar fyrsta sumarið á eftir og blómgast lítið.

Í sambandi við ræktunina eru nokkur atriði sem verða að vera í lagi. Jarðvegur verður að vera fremur súr eða á bilinu pH 4-6 og vel framræstur. Best er að planta þeim í léttum skugga á skýldum stað. Betra er að hafa smá framhalla þannig að yfirborðsvatn leiti burt en það má alls ekki sitja við rótarkerfið að vetrum.

Fjölgun.

Eftir blómgun myndast aflangar fræhirslur sem innihalda mjög mikið af fremur smáu fræi. Þær líkist aflöngum bauk með loki. Þegar lítil göt koma í lokið að ofanverðu er sýnilegt að fræið er þroskað. Smáum fræjum má þá hella úr bauknum. Einnig má mylja fræhirslurnar og sigta síðan fræin frá í gegn um fínmöskvað sigti.

Það hefur sýnt sig að sáning að vori skilar fremur lélegum árangri miðað við haustsáningu. Spírunarprósentan er mun minni og fáar plöntur koma út úr hverri sáningu. Betra er að sá í sérstaka sáðkassa eða potta að hausti. Gott er að blanda greninálum saman við sáðmoldina og hylja fræið með sandi. Pottunum er síðan komið fyrir á skýldum stað yfir veturinn t.d. í sólreit undir gleri og spírun að vori verður nær því 100%.

Fræplöntur vaxa nokkuð hratt og eftir einn til einn og hálfan mánuð er kominn tími til að dreifsetja þær með varúð. Smáar plönturnar eru með mjög viðkvæmt rótarkerfi og rótarháls. Þær þola ekki að þorna upp og því síður ofvökvun. Plönturnar eru síðan fluttar út í sólreit síðsumars og aldar þar upp í 1 ár áður en þeim er plantað út í garðinn á endanlegan vaxtarstað.

Þeir sem hafa ekki nú þegar spreytt sig á þessari fámennu en fallegu ættkvísl eiga svo sannarlega eftir að reyna sitthvað skemmtilegt í garðyrkjunni.

Texti og myndir - Björgvin Steindórsson garðyrkjufræðingur.Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is